„Við hægjum á öllu sem við getum hægt á“

Frá skimun fyrir kórónuveirunni. Myndin er úr safni.
Frá skimun fyrir kórónuveirunni. Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fyrirtæki eru opin, samfélagið virkar, en við förum okkur hægt,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, í samtali við mbl.is. Einungis eitt smit greindist í Þorlákshöfn í gær en samfélagið verður í hægagangi út vikuna. 

200 manns mættu í skimun fyrir kórónuveirunni í grunnskólanum í Þorlákshöfn í gærmorgun. Eitt sýni sem greint var fyrir klukkan níu í gærkvöldi reyndist jákvætt.

„Við vitum ekki hvort það smit sé úr skimun á þessum 200 manns eða hvort það sé einhver sem hafi verið skimaður áður í sóttkví vegna hópsmitsins. Við höfum líka fengið upplýsingar núna um það að ekkert smit hefur komið í ljós úr sýnunum eftir klukkan níu en við vitum enn ekki hversu stóran hluta er búið að greina,“ segir Elliði. 

Engin smit greindust eftir klukkan níu í gærkvöldi. Elliði segir að ef fleiri smit greinist ekki geti bæjarbúar leyft sér að vera enn bjartsýnni í dag en í gær. Á morgun fer fólk sem var útsett sl. þriðjudag í skimun. Þá hvetur Elliði fólk til að panta sér sýnatöku ef það er með einkenni Covid-19. 

Sýnir samstöðu bæjarbúa

Foreldrar leikskólabarna voru í byrjun viku beðnir um að halda börnum sínum heima ef þeir hefðu tök á. Foreldrar brugðust vel við þeirri ósk og voru aðeins þrjú börn á leikskólanum Bergheimum í gær. Elliði segir að það sýni vel samstöðu bæjarbúa.

„Það gerir það og af því að við getum hægt á þennan máta á samfélagin en veitt alla þá þjónustu  sem við höfum verið að veita; fyrirtæki eru opin, menn eru að mæta í vinnu við smíðar, við erum að taka á móti afla og millilandaskipum og fleira. Við hægjum á öllu sem við getum hægt á og þannig vonumst við til að ná tökum á þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert