Spáð er allt að 15 metrum á sekúndu í hviðum á gosstöðvunum síðdegis og í kvöld en í dag er norðan og norðaustan 5-10 m/s og léttskýjað. Hiti 5 stig yfir daginn en frystir seint í kvöld og í nótt. NA 5-10 og léttskýjað á morgun en hæg breytileg átt annað kvöld.
Í dag og á morgun berst gas til suðurs og suðvesturs og gæti haft áhrif í Grindavík. Annað kvöld er hætt við að gas safnist í lægðum við gosstöðina. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.
Bannað er að leggja ökutækjum á og við Suðurstrandarveg. Leggja skal bílum á skipulögðum stæðum á grasflötum við veginn en aðkoma að bílastæðum er bæði úr austri og vestri.
Áætla má að gangan taki 3-4 klst. fram og til baka fyrir meðalvant göngufólk. Gönguleiðin er stikuð og greinileg. Hafið síma fullhlaðna. Verið með höfuðljós/vasaljós og auka rafhlöður í kvöldgöngu.
Börnum, öldruðum, barnshafandi konum og þeim sem hafa undirliggjandi hjarta- og lungnasjúkdóma er ráðið frá því að fara á gosstöðvarnar ef einhver loftmengun er yfirvofandi. Einnig getur verið yfirborðsmengun í jarðvegi, snjó og yfirborðsvatni vegna þungmálma og uppsöfnunar flúors (F). Yfirborðsmengun er mest í næsta nágrenni við gosstöðina. Vegna loftmengunar er ekki ráðlagt að dvelja lengi við gosstöðvarnar.
Frá miðnætti til hádegis (00-12) eru engir viðbragðsaðilar á svæðinu til að mæla gasmengun og bregðast við óhöppum. Þeir sem ætla sér inn á svæðið fyrir hádegi hafi þetta í huga. Gossvæðið er hættulegt og þá ekki síst vegna lélegra loftgæða. Þá hefur gönguleið reynst mörgum erfið. Lögregla getur án fyrirvara lokað fyrir alla umferð inn að gosstöðvunum, að því er segir í tilkynningu frá lögreglu.
Svæðið er ekki fyrir lítil börn, þau eru viðkvæm og nær jörðinni en þeir sem eldri eru og því berskjölduð fyrir skaðlegum lofttegundum. Nauðsynlegt er að vera í góðum gönguskóm og öðrum útivistarfatnaði.