Sennilega mun peningastefnunefnd Seðlabankans fylgjast grannt með þróun mála á fasteignamarkaði áður en ákvarðanir verða teknar um að grípa til stýrivaxtahækkana.
Þetta er mat Daníels Svavarssonar, forstöðumanns hagfræðideildar Landsbankans, í kjölfar þess að tólf mánaða verðbólga mældist 4,6% í aprílmánuði.
Spurður í Morgunblaðinu í dag hvort óvænt hækkun vísitölunnar muni leiða til þess að viðskiptabankarnir grípi til breytinga á breytilegum húsnæðisvöxtum, segir Daníel ólíklegt að það muni gerast fyrr en Seðlabankinn hugsi sér til hreyfings með stýrivextina.
„Hins vegar er ekki útilokað að Seðlabankinn grípi til annarra tækja sem hann hefur. T.d. gæti hann skoðað hvort breyta ætti hámarks-lánsfjárhlutföllum, ekki síst með húsnæðislán með breytilegum óverðtryggðum vöxtum. Þá er einnig hugsanlegt að bankinn kalli eftir samræmingu í greiðslumati bankanna þegar kemur að slíkum lánum, þ.e. að horft verði sérstaklega til þess að fólk hafi svigrúm til að taka á sig hækkandi greiðslubyrði ef vextirnir hækka.“