Erfitt að leita utan þjónustusvæðis

Björgunarsveitin Heiðar biðlar til þeirra er fjárveitingarvaldið hafa að greiða götu Neyðarlínunnar þannig að sveitin lendi ekki í því að lendi ekki í því að leita fólks utan þjónustusvæðis; líkt og raunin var á miðvikudagskvöld.

Umræddur einstaklingur fannst nokkrum klukkutímum síðar en hann hafði lent í hrakningum og fest bíl sinn á svæði sem er utan GSM-símasambands, skammt suður af Langavatni í Borgarfirði.

Ljósmynd/Björgunarsveitin Heiðar

Næsti sendir sem hafði numið merki frá símanum er Skáneyjarbunga sem er í ca. 27 km fjarlægð í beinni loftlínu. Leitarsvæðið verður því margfalt umfangsmeira,“ kemur fram í facebook-færslu björgunarsveitarinnar.

Björgunarsveitin hefur lagt til við símafyrirtæki að settur verði upp gsm-sendir á Staðarhnjúki en sá sendir hefði mögulega komið í veg fyrir útkallið. Símafyrirtæki hafa svarða því til að sendir á svæðinu sé ekki markaðslega hagkvæmur.

Ljósmynd/Björgunarsveitin Heiðar

Í framhaldi af því svari höfðum við samband við Neyðarlínuna og lögðum til að Tetra-sendir verði settir upp á staðnum, þá er kominn sendir og mastur og hagkvæmara er fyrir símafyrirtækin að setja upp sína senda í kjölfarið. Geta má þess að Tetra-samband er mjög lélegt á þessu svæði. Neyðarlínan hefur tekið vel í þessa tillögu en okkur skilst sá fjármagnskvóti sem þau hafa í uppsetningu á Tetra-sendum sé búinn að sinni og því ekki á döfinni að þessi sendir komi á næstu misserum,“ segir í færslunni.

Biðlað er til þeirra sem fjárveitingarvaldið hafa að greiða götu Neyðarlínunnar þannig að hægt verði að bæta fjarskipti og auka öryggi í dreifbýlli sveitum.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert