Framlengir reglugerð um endurgreiðslur fyrir þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að framlengja um einn mánuð reglugerð 1255/2018 um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands.

Ráðherra áréttar að í reglugerð nr. 1350/2020 um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu er sett fram hámark á greiðslur sjúkratryggðra fyrir heilbrigðisþjónustu á tilteknu tímabili, að því er segir á vef heilbrigðisráðuneytisins. 

„Þetta er mikilvægur hluti af því að tryggja öllum sem bestan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Þrátt fyrir það hafa sjálfstætt starfandi sérgreinalæknar í sumum tilvikum sett gjaldskrár sem standa til hliðar við opinbera kerfið sem veldur því að sjúklingar þurfa að greiða tvo reikninga þegar þeir sækja þjónustu sérgreinalækna. Annan þeirra fá þeir endurgreiddan í hlutfalli við heildarútgjöld sín til heilbrigðisþjónustu. Hinn reikninginn þurfa þeir að greiða að fullu til sérgreinalæknisins og fá sjúklingar þann kostnað ekki endurgreiddan og hann reiknast ekki til afsláttar af heildarútgjöldum sjúklingsins. Gjöldin standa því kerfi fyrir þrifum sem sett hefur verið upp af hinu opinbera með hagsmuni sjúklinga að leiðarljósi. Heilbrigðisráðherra beinir þeim tilmælum til sérgreinalækna sem hyggjast hafa milligöngu um endurgreiðslur sjúkratrygginga á hlut sjúklinga sinna að þeir starfi í samræmi við greiðsluþátttökukerfið sem tryggir sjúklingum sanngjarna greiðsluþátttöku,“ segir í tilkynningunni. 

Nánar hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert