Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist nú 28,7%, tæplega sex prósentustigum hærra en í síðustu könnun MMR um fylgi stjórnmálaflokka sem var framkvæmd í byrjun apríl.
Aukning fylgis Sjálfstæðisflokksins nú endurspeglar á vissan hátt þróun á fylgi flokksins við upphaf kórónuveirufaraldursins þegar það tók álíka kipp í fylgismælingu MMR í mars 2020, stuttu eftir að fyrsta tilfelli kórónuveirunnar greindist á Íslandi, að því er segir í tilkynningu.
Fylgi Vinstri-grænna jókst um tæp þrjú prósentustig frá síðustu könnun og mældist nú 12,9% en fylgi Framsóknarflokksins minnkaði um eitt prósentustig og mældist nú 10,5%.
Fylgi Samfylkingarinnar minnkaði um rúm fjögur prósentustig á milli mælinga og mældist nú 11,3% og fylgi Pírata minnkaði um tæp fjögur prósentustig og mældist nú 9,6%.
Þá jókst fylgi Sósíalistaflokks Íslands um tvö prósentustig og mældist nú 6,0% en fylgi Miðflokksins minnkaði um rúmt prósentustig og mældist nú 5,8%.
Stuðningur við ríkisstjórnina mældist nú 56,2% og jókst um tæplega fjögur prósentustig frá síðustu könnun, þar sem stuðningur mældist 52,5%, að því er kemur fram í tilkynningunni.