Landsréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir karlmanni sem var sumarið 2019 dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að halda þriggja ára syni sínum yfir svalahandriði íbúðar, sveifla honum og hóta að sleppa drengnum.
Atvikið átti sér stað í ágúst 2014.
Maðurinn var enn fremur fundinn sekur um brot gegn valdstjórninni en hann réðst í kjölfarið á lögregluþjón.
Maðurinn neitaði sök fyrir dómi en var sakfelldur fyrir bæði brotin.
Samkvæmt niðurstöðu geðlæknis var maðurinn metinn sakhæfur. Maðurinn er öryrki en þrátt fyrir sjúkdóm sinn „er hann sjálfbjarga og tekur þátt í uppeldi sonar síns“ að því er segir í dómnum. Þar segir ennfremur að maðurinn hafi neytt róandi og örvandi lyfja í bland við áfengi á þeim tíma þegar atvikið átti sér stað.
Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða sakarkostnað og málsvarnarlaun verjanda síns.