Jákvætt myglustrok í nýuppgerðu húsnæði

„Engin börn hafa veikst vegna myglu í leikskólanum svo vitað …
„Engin börn hafa veikst vegna myglu í leikskólanum svo vitað sé,“ segir í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn mbl.is. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leki kom upp í leikskólanum Kvistaborg í Fossvogi vorið 2020 í húsnæði sem nýlega hafði verið gert upp. Í loftgæðamælingu verkfræðistofunnar Mannvits um sumarið kom eitt myglustrok út jákvætt og var það afhent umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar í júlí síðastliðnum. Leikskólinn fékk aftur á móti skýrsluna um málið ekki afhenta fyrr en í marsmánuði.

Í skriflegu svari frá Reykjavíkurborg við fyrirspurn mbl.is um málið er ástæðan fyrir því sögð sú að til hafi staðið að Mannvit fylgdi niðurstöðunum eftir með kynningu fyrir stjórnendur.

Mygla kom upp árið 2017

„Tvennt virðist hafa tafið fyrir þeim kynningarfundi, annars vegar aðstæður er varða Mannvit og hins vegar aðstæður í leikskólanum í tengslum við  Covid-19. Aðgangur að skólanum var m.a. takmarkaður og mörg brýn verkefni á hendi starfsfólks og stjórnenda,“ segir í svari frá borginni.

Verkfræðistofan Efla rannsakar nú húsnæðið og hefur starfsemi leikskólans verið færð í bráðabirgðahúsnæði að Hólmgarði 34. Þegar niðurstöður úr henni liggja fyrir verður farið í þær framkvæmdir sem Efla telur nauðsynlegar.

Mygla kom upp í Kvistaborg árið 2017. Leikskólastjórinn sagði viðhaldi þá ábótavant.

Ekki vitað til þess að börn hafi veikst

Hafa börn á leikskólanum lent í veikindum sem mögulegt er að tengja myglu í húsnæði?

„Engin börn hafa veikst vegna myglu í leikskólanum svo vitað sé.“

Í svari borgarinnar segir jafnframt að fulltrúar skóla- og frístundasviðs ásamt fulltrúum umhverfis- og skipulagssviðs séu í góðu samstarfi við leikskólastjóra Kvistaborgar á meðan loftgæði í leikskólanum eru könnuð og unnið að endurbótum á húsnæði.

„Allt verður gert til þess að flutningur á milli húsa raski sem minnst starfsemi leikskólans. Bráðabirgðahúsnæði fyrir leikskólann að Hólmgarði 34 er gott og stutt í útileiksvæði.“

Talað fyrir daufum eyrum

Vísir greindi frá bréfi leikskólastjóra Kvistaborgar til foreldra um málið sl. miðvikudag. Í frétt miðilsins var eftirfarandi textabrot úr póstinum m.a. birt: 

„Ég hef ætíð óskað eftir betri myglu-sýnatöku í Kvistaborg en talað fyrir daufum eyrum. Ég fór þá leið að panta sjálf sýnatöku frá Eflu verkfræðistofu fyrir Kvistaborg, í kjölfarið á niðurstöðum frá Mannviti. Það er búið að taka nokkur sýni á þessum tveimur stöðum þar sem á að fara í framkvæmdir, Asparlundi og gryfjunni.

Mygla eða ekki mygla, það vitum við ekki fyrir víst, en við bíðum eftir niðurstöðum í skýrslu frá Eflu. Þegar skýrslan berst mun ég upplýsa ykkur nánar um stöðu mála.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert