Kostnaðurinn hleypur á milljörðum

„Þetta eru ekki fjármunir sem fara í súginn þó að …
„Þetta eru ekki fjármunir sem fara í súginn þó að þeir birtist í hallarekstri ríkissjóðs, heldur eru þeir að koma heimilunum og fyrirtækjunum til góða og munu skila okkur sterkari stöðu þegar fram líða stundir,“ segir Bjarni Benediktsson. mbl.is/Arnþór

Nýkynntar viðspyrnuaðgerðir ríkisstjórnarinnar munu kosta ríkissjóð milljarða. Fjármála- og efnahagsráðherra segir að þeir viðspyrnustyrkir sem nú eru útvíkkaðir séu innan kostnaðarmats og telur hann að fjármununum sé vel varið.

„Nú er þetta svo fjölbreytt úrræði að það þarf að horfa á niðurbrotið. En þetta er viðbótarkostnaður sem hleypur á milljörðum. Sérstaklega eru vinnumarkaðsúrræðin kostnaðarmikil,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í samtali við mbl.is.

Vinna innan eldra kostnaðarmats

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag ætla stjórnvöld að framlengja ýmsar viðspyrnuaðgerðir, ásamt því að kynna nýjar aðgerðir til leiks.

„Einstaka vinnumarkaðsaðgerðir hlaupa á milljörðum. Við gerum ráð fyrir því að það muni margir milljarðar fara í viðbótargreiðslur vegna þessa nýja viðspyrnustyrkjaflokks. Það er nýr tekjufallsflokkur sem er 40-60% tekjufall sem við erum að opna og nær aftur til nóvember í fyrra. Það er við því að búast að það muni kosta milljarða en viðspyrnustyrkjaúrræðið var metið á hærri fjárhæðir en hafa farið út svo við erum svo sem enn að vinna innan eldra kostnaðarmats.“

Formenn stjórnarflokkanna kynntu viðspyrnuaðgerðirnar eftir ríkisstjórnarfund í morgun.
Formenn stjórnarflokkanna kynntu viðspyrnuaðgerðirnar eftir ríkisstjórnarfund í morgun. mbl.is/Arnþór

Bjarni segir að þeir fjármunir sem fari í umræddar viðspyrnuaðgerðir muni nýtast vel.

„Þegar við horfum á viðspyrnustyrkina sem við erum að útvíkka og framlengja vorum við áður með kostnaðarmat og við erum vel innan þess kostnaðarmats. M.a. þess vegna erum við að segja að það sé óhætt að útvíkka úrræðin til þess að ná betur þeim markmiðum sem að er stefnt. Varðandi kostnaðinn þá hef ég alltaf sagt að þetta er fjármunum vel varið. Þetta eru ekki fjármunir sem fara í súginn þó að þeir birtist í hallarekstri ríkissjóðs, heldur eru þeir að koma heimilunum og fyrirtækjunum til góða og munu skila okkur sterkari stöðu þegar fram líða stundir.“

„Við bindum vonir við að geta opnað samfélagið“

Afléttingaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem er í takti við bólusetningaáætlun, gerir ráð fyrir því að mögulegt verði að aflétta öllum sóttvarnaaðgerðum í lok júní, þegar 75% fullorðinna hafa fengið bólusetningu.

„Við bindum vonir við að geta opnað samfélagið og þá um leið fái rekstraraðilar viðspyrnu og fleiri geti fengið vinnu að nýju. Ef starfsemi á alþjóðaflugvellinum fer af stað á síðari hluta ársins mun það skipta máli líka. Það er mikilvægt á þessum tímapunkti að svara því hvernig við ætlum að botna sum úrræðin sem eru að renna sitt skeið til dæmis núna í lok maí og hvað taki við,“ segir Bjarni.

Ísland á kortinu

Er ekki kominn tími á að markaðssetja Ísland í þeim ríkjum þar sem bólusetning er orðin útbreidd?

„Mér finnst að við höfum verið mjög vel á kortinu. Ég held að við njótum góðs af jákvæðri umfjöllun um Ísland vegna þess árangurs sem við höfum náð í að hefta útbreiðslu veirunnar. Það hefur vakið athygli, augljóslega er gosið að tryggja okkur kynningu um allan heim. Svo höfðum við tekið frá peninga til þess að fara í sérstakt markaðsátak og þeir munu nýtast vel núna.“

Er útlit fyrir að ferðamönnum fari að fjölga?

„Spár hafa auðvitað verið háðar ofboðslega mikilli óvissu. Við erum með spá frá Hagstofunni. Ég held að það séu ekki væntingar um að við förum fram úr þeirri spá, um 700.000 ferðamenn, á þessu ári. En maður veit aldrei hversu hratt hlutirnir breytast. Ég hef trú á því að viðsnúningurinn verði mjög sterkur þegar hann byrjar.“

Treystum við á það að þessir 700.000 ferðamenn komi til landsins?

„Eftir því sem landamærin opnast hraðar, þeim mun hraðar munu Íslendingar fara á ferðalag. Það mun draga úr neyslu hér innanlands. Ef við fáum ekki ferðamennina má kannski segja að neyslan innanlands sé líklegri til að vera sterkari lengur og það vegi upp að einhverju marki þó við höfum séð það mjög greinilega í fyrra að innanlandsneyslan náði alls ekki að vega upp tapið af komu ferðamanna í virðisaukaskattinum svo dæmi sé tekið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert