Leikurinn þarf að ná yfir nítugustu mínútu

„Við ætlum að klára þennan leik,“ segir Ásmundur Einar.
„Við ætlum að klára þennan leik,“ segir Ásmundur Einar. mbl.is/Arnþór Birkisson

Skilyrði um það hvaða fyrirtæki geti nýtt sér hlutabótaleiðina, t.d. hvað varðar útgreiðslu arðs, heyra sögunni til þegar leiðin rennur inn í átak Vinnumálastofnunar, „Hefjum störf“.  Átakið gengur út á það að atvinnulausum fylgir styrkur inn í tiltekin störf sem auglýst eru í því skyni. 

„Hefjum störf byggir á því að við viljum að öll fyrirtæki, öll félagasamtök og öll sveitarfélög ráði til sín fólk þannig að það eru ekki sömu skilyrði og eru í hlutabótaleiðinni vegna þess að við viljum að vel stæð fyrirtæki bæti við sig fólki. Það er algjört böl á íslensku samfélagi það mikla atvinnuleysi sem er til staðar,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra um það. 

„Það er í raun og veru fyrst og fremst verið að tryggja að starfsmennirnir geti farið í 100% virkni og fengið laun og stuðningurinn fari þá í þetta skipti til fyrirtækjanna en á móti er starfsmaðurinn kominn í vinnu,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra um málið. 

Ríkisstjórnin kynnti viðspyrnuaðgerðir vegna Covid-19 að loknum fundi sínum í dag. Í aðgerðunum felast meðal annars aðgerðir fyrir stúdenta í formi aukins möguleika á viðbótarlánum. 

Sigurður Ingi Jóhannsson að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.
Sigurður Ingi Jóhannsson að loknum ríkisstjórnarfundi í dag. mbl.is/Arnþór Birkisson

Störf fyrir námsmenn

Kom ekki til greina að skoða atvinnuleysisbætur fyrir námsmenn eins og þeir hafa kallað eftir?

„Við höfum fyrst og fremst verið að skoða þetta í heild sinni. Í átakinu Hefjum störf er verið að skapa störf fyrir 2.500 námsmenn, ef ég man rétt, til tveggja og hálfs mánaðar vinnu í sumar. Þetta úrræði gekk mjög vel í fyrra og við sköpuðum fleiri störf en þörf var fyrir,“ segir Sigurður Ingi um það. 

Hann bætir því við að með þeim lánamöguleikum sem eru í dag og hækkun á frítekjumarki séu námsmenn í „ágætum málum“ hvað varðar framfærsluviðmið félagsmálaráðuneytisins.

Spurður hvers vegna verið sé að leggja fram viðspyrnuaðgerðir nú, þegar sést til sólar í faraldrinum segir Ásmundur Einar: 

„Vegna þess að við erum að klára og fylgja eftir þeim verkum sem við höfum verið að gera. Við ætlum að klára þennan leik, til þess að klára leikinn þarf að klára hann alveg fram yfir nítugustu mínútu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert