Ný ferðagjöf gildir út þetta sumar

Ferðagjöfin verður með sama sniði og í fyrra.
Ferðagjöfin verður með sama sniði og í fyrra. mbl.is/RAX

Gefin verður út ný ferðagjöf sem gildir út sumarið 2021. Gjöfin verður með sama sniði og fyrra úrræði þar sem landsmenn fá fjárhagslegan hvata til að njóta íslenskrar ferðaþjónustu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ríkisstjórninni.

Fjárhæðin verður sú sama og árið 2020, þ.e. 5.000 kr. fyrir einstaklinga fædda 2003 eða fyrr. Enn verður hægt að nota ónýttar ferðagjafir, útgefnar árið 2020, til 31. maí 2021, en eftir það falla þær niður við endurnýjun ferðagjafar 2021, að því er segir í annarri tilkynningu

Frá gildistöku laga í júní 2020 þar til í apríl 2021 höfðu tæplega 200 þúsund einstaklingar sótt ferðagjöfina af þeim 280 þúsund sem fengu hana útgefna. Þá hafa 812 fyrirtæki verið skráð til þátttöku.

„Markmið ferðagjafar er að hvetja fólk til að ferðast vítt og breitt um landið, ásamt því að hvetja fyrirtæki innan ferðaþjónustunnar til þátttöku í verkefninu, með því að bjóða upp á fjölbreytt tilboð og tækifæri, líkt og síðasta sumar en átakið mæltist vel fyrir og hafði jákvæð áhrif á fólk og fyrirtæki,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem mun leggja fram frumvarp um endurnýjun ferðagjafar með gildistíma frá 1. júní 2021 til og með 31. ágúst 2021.

Samtryggingasjóður vegna pakkaferða

Með frumvarpi ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra er einnig lagt til að rekinn verði samtryggingasjóður allra seljenda pakkaferða sem tryggi fullar endurgreiðslur í þeim tilvikum. Stofnun sjóðsins hefur mikið hagræði í för með sér fyrir ferðaskrifstofur á sama tíma og neytendavernd er aukin, að því er segir í fyrri tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert