Síðasta áratuginn hefur sala á rafmagnshjólum aukist mikið og var heildarverðmæti slíkra hjóla sambærilegt við hefðbundin hjól í fyrra. Þá varð sprenging í sölu rafmagnshlaupahjóla í fyrra og tæplega 20 þúsund slík tæki flutt inn til landsins.
Verslunareigendur segja að allt útlit sé fyrir að sala rafmagnshjóla haldi áfram að aukast í ár. Helsta vandamálið sé vöruskortur frá útlöndum vegna mikillar eftirspurnar á alþjóðavísu. Stærsti viðskiptahópurinn er fólk sem er að komast á miðjan aldur og hefur jafnvel lítið eða ekkert hjólað áður.
Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa undanfarin ár unnið að innviðauppbyggingu fyrir hjólreiðar og bæði Kópavogur og Reykjavík munu á þessu ári kynna nýja hjólreiðaáætlun. Meðal annars er horft til þess í Reykjavík að skilgreina sérstakar hjólagötur. Í Hjólablaðinu er fjallað um þetta og fleira sem viðkemur hjólreiðum.