„Rammaáætlun hefur á síðasta áratug þróast frá því að vera alhliða verkfæri til þess að meta og raða virkjunarkostum með tilliti til nýtingar og verndar. Þar sem mismunandi sjónarmiðum var stefnt saman.
Hún er nú orðin vettvangur mjög einhliða og langsóttra náttúruverndarsjónarmiða og langtíma frystigeymsla fyrir nýjar virkjanahugmyndir,“ sagði Guðni A Jóhannesson, fráfarandi orkumálastjóri, á síðasta ársfundi sínum hjá Orkustofnun í gær.
Til að setja verðmæti orku og virkjanakosta í samhengi benti Guðni á verðmæti loðnuveiðar.
„Það var mikil gleði í samfélaginu þegar rættist úr síðustu loðnuvertíð þannig úr varð verðmætasköpun sem samsvaraði 25 milljörðum í útflutningstekjum. Það vill nú reyndar til að þetta er um það bil sama upphæð sem orkutengdur iðnaður skapar í útflutningstekjur á hverja teravattsstundar í framleiddri raforku, sem standa má undir með u.þ.b. 120 megavatta jarðhita- eða vatnsaflsvirkjun.“
Guðni lætur af störfum þann 19. júní næstkomandi eftir áralangan feril, þar af hefur hann sinnt stöðu orkumálastjóra síðan árið 2008.
Guðni hefur löngum verið þekktur fyrir að sitja ekki á skoðunum sínum og vekja athygli með árlegum jólapistlum.
Í ræðu sinni fór Guðni um víðan völl. Vék hann meðal annars að sögu leitar að olíu á drekasvæðinu og því sem áunnist hefur með rannsóknum á svæðinu frá því að þær hófust árið 2009.
„Líkur á mögulegri vinnslu kolvetna á Drekasvæðinu eru á sumum hlutum þess takmarkaðar en aukast almennt í norðausturstefnu og eru að öllum líkindum bestar á samningssvæðinu í norskri lögsögu þar sem Íslendingar eiga rétt á hlut í vinnslunni ef af verður.“