Sæluviku Skagfirðinga lýkur um helgina en vegna kórónuveirunnar hefur dagskráin verið með óhefðbundnu sniði. Mikið hefur verið um rafrænar sýningar, tónleika og sjónvarpsþætti sem hægt hefur verið að nálgast á síðunni saeluvika.is.
Uppfærslur með Leikfélagi Sauðárkróks og nemendafélögum Árskóla og Fjölbrautaskólans á Sauðárkróki hafa m.a. verið sýndar á netinu; leikrit og söngleikir, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Nokkrir viðburðir hafa verið í raunheimum, m.a. sýning á Héraðsskjalasafninu um héraðsfréttablaðið Feyki í 40 ár og myndlistarsýning hefur verið í Gúttó á verkum skagfirskra myndlistarmanna. Opið hús verður á Byggðasafninu í Glaumbæ í dag frá kl. 10 til 16. Í kvöld verður sumarball fyrir 5.-7.bekk í Húsi frítímans og á morgun verða tvennir tónleikar í Gránu, „Skagfirskir tónar“, með lögum og textum sem konur úr Skagafirði hafa samið. Á morgun verður tilkynnt hver hlýtur Samfélagsverðlaun Skagafjarðar 2021 og úrslit í vísnakeppni Feykis og Safnahússins einnig kynnt.