Stóra augnablikið í faraldrinum í kringum 1. júlí

Katrín segist vilja stíga varlega til jarðar hvað varðar afléttingar …
Katrín segist vilja stíga varlega til jarðar hvað varðar afléttingar sóttvarnaaðgerða. mbl.is/Arnþór

Forsætisráðherra segir ríkisstjórnina ekki vera komna með tillögur frá sóttvarnalækni um áframhaldandi sóttvarnaaðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins í hendurnar. Hún segir að í kringum 1. júlí verði þjóðin að öllum líkindum komin á „mjög góðan stað“, því þá verða væntanlega 75% þjóðarinnar komin með í það minnsta einn skammt af bóluefni.

Eins og greint var frá fyrr í dag náðist annað markmið afléttingaráætlunar stjórnvalda í gær þegar hlutfall bólusettra fullorðinna fór yfir 35%. Miðað við áætlunina ætti að vera hægt að rýmka samkomutakmörk í allt að 200 í takt við það bólusetningarhlutfall. 

Þrátt fyrir það hafa engar afléttingar á núverandi samkomutakmörkunum, sem eru í 20 manns, verið tilkynntar. 

Ekki farin að ræða afléttingar

Getum við hækkað samkomutakmörkin úr 20 manns í byrjun maí? 

„Ég hef alltaf viljað stíga varlega til jarðar. Við erum bjartsýn vegna þess að bólusetningarnar ganga vel en við höfum um leið sagt að það þarf að taka mið af þróun þessa faraldurs og hann er enn þá lúmskur,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. 

Hún segir að ríkisstjórnin sé ekki farin að ræða afléttingar umfram þær stóru línur sem settar voru fram í afléttingaráætluninni á þriðjudag. 

„Auðvitað verður stóra augnablikið í þessu í sumar þegar við verðum komin á þann stað, í kringum 1. júlí, að 75% verða bólusett. Þá erum við auðvitað komin á mjög góðan stað.“

Ríkisstjórnin kynnti viðspyrnuaðgerðir fyrir samfélagið í dag sem felast m.a. í útvíkkun fyrri efnahagsaðgerða. 

Ekki enn komin í gegnum þetta

Hvers vegna kynnið þið slíkar aðgerðir núna þegar vonast er til þess að allt sé að fara af stað aftur

„Við metum það þannig að það sé betra að vera öruggu megin við þessa línu, þ.e.a.s. þó við séum farin að sjá til sólar og það sé bjartara fram undan erum við ekki enn komin í gegnum þetta. Við teljum að það sé mikilvægt að framlengja heimildir, sem við vonum auðvitað að verði ekki nýttar, þannig að það sé ákveðið öryggi og fyrirsjáanleiki í þessu. Við vitum að það mun taka tíma fyrir þetta allt saman að taka við sér þó við séum að sjá mjög jákvæð teikn á lofti, í gegnum þau úrræði sem við höfum verið að kynna, eins og hefjum störf, mun þetta taka tíma þannig að þess vegna erum við að kynna þetta núna. Auðvitað vonum við að það þurfi ekki að vera fleiri pakkar þó maður skyldi aldrei segja aldrei.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert