Flúðaskóli verður lokaður í dag og á mánudag og leikskólinn á Flúðum verður einnig lokaður í dag. Eins verða sundlaugin, íþróttahúsið og tækjasalur lokuð í dag og um helgina vegna þriggja smita í Hrunamannahreppi.
Þetta kemur fram í bréfi sem Hrunamannahreppur birti á Facebook í gærkvöldi.
Þar kemur fram að þessi ákvörðun hafi verið tekin í ljósi þess að einn nemandi í 1. bekk Flúðaskóla hafi greinst með Covid-19 auk þeirra tveggja smita sem vitað var um í samfélaginu. Um varúðarráðstöfun er að ræða í þeirri von að hægt verði að brjóta smitkeðju sem geti verið í samfélaginu í Hrunamannahreppi.
Gert er ráð fyrir að starfsemi stofnana, fyrir utan Flúðaskóla, verði með eðlilegum hætti á mánudaginn nema staðan breytist um helgina.