Virðast tengjast smitum við ströndina

Flúðir eru í Hrunamannahreppi.
Flúðir eru í Hrunamannahreppi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Smitin þrjú sem eru komin upp í Hrunamannahreppi virðast tengjast öðrum smitum á Suðurlandi, úr sveitarfélögum við ströndina, að sögn sveitarstjóra Hrunamannahrepps. Hann segir að fólki sé brugðið en um sé að ræða verkefni sem þurfi að takast á við. 

Flúðaskóli verður lokaður í dag og á mánu­dag og leik­skól­inn á Flúðum verður einnig lokaður í dag. Eins verða sund­laug­in, íþrótta­húsið og tækja­sal­ur lokuð í dag og um helg­ina vegna smitanna. 

„Í varúðarskyni erum við aðeins að hægja á öllu saman, minnka snertifleti og senda skilaboð út í samfélagið um að fólk fari í skimun við minnstu einkenni eða grun um smit,“ segir Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri Hrunamannahrepps, í samtali við mbl.is. 

17 börn send í sóttkví

Einn nemandi í fyrsta bekk Flúðaskóla greindist með kórónuveirusmit í gær en hann var í sóttkví og hafði ekki farið í skólann síðan á miðvikudag. 17 börn voru send í úrvinnslusóttkví vegna smitsins. Þau verða skimuð á þriðjudag og mun væntanlega standa til boða fyrir fleiri að fara í þá skimun. 

„Þá verða þeir aðilar í sveitarfélaginu sem eru í sóttkví skimaðir en það er töluverður fjöldi. Þá skýrist þetta betur,“ segir Jón. 

Aðspurður segir Jón nokkurn veginn vitað hvaðan smitin þrjú koma. Eitt þeirra greindist hjá íbúa á Flúðum en tvö í dreifbýlinu. Smitin virðast hafa komið inn í Hrunamannahrepp með fólki sem sækir vinnu þangað en býr með ströndinni. Einum vinnustað hefur verið lokað vegna smitaðs starfsmanns en miðað við skimun sem starfsmennirnir fóru í síðastliðinn þriðjudag virðist smitið þar ekki vera útbreitt. Starfsmenn fyrirtækisins fara aftur í skimun næsta þriðjudag.

Eins og mbl.is hefur greint frá kom upp hópsmit í Þorlákshöfn fyrir tæpri viku síðan.

Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri Hrunamannahrepps.
Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri Hrunamannahrepps. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert