Diljá Mist Einarsdóttir, hæstaréttarlögmaður og aðstoðarmaður utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, hefur ákveðið að gefa kost á sér í 3. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík fyrir komandi alþingiskosningar sem fram fer þann 4. og 5. júní nk. Diljá er gift Róberti Benedikt Róbertssyni fjármálastjóra og eiga þau tvö börn.
Þetta kemur fram í tilkynningu.
Diljá Mist Einarsdóttir fæddist í Reykjavík 21. desember 1987. Hún öðlaðist málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti í desember 2016, yngst kvenna á Íslandi. Diljá er með meistarapróf í lögfræði frá Háskóla Íslands en hún starfaði áður sem fulltrúi á lögmannsstofunni Lögmáli. Auk meistaraprófs í lögfræði er Diljá með LL.M.-gráðu í auðlindarétti og alþjóðlegum umhverfisrétti frá Háskóla Íslands. Þá er Diljá stúdent frá Verzlunarskóla Íslands.
„Ég tel mikilvægast að við horfum á stóru myndina – forræðishyggja og vaxandi afskipti ríkisins af venjulegu fólki er mikið áhyggjuefni. Í frjálsu samfélagi er hagsmunum okkar best borgið, þar nýtur hvert og eitt okkar sín best – fjölbreytileiki mannlífsins er okkar helsti styrkleiki. Við höfum staðið okkur best þegar við treystum á okkur sjálf. Nú eigum við að horfa óhrædd og björtum og augum til framtíðar,” er haft eftir Diljá í tilkynningu.
Diljá hefur aðstoðað Guðlaug Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, frá árinu 2018. Störf Diljár innan ráðuneytisins hafa m.a. snúið að þróunarsamvinnu sem er orðinn veigamikill hluti af utanríkismálum Íslands og leiddi hún starfshóp um innleiðingu mannréttindamiðaðrar þróunarsamvinnu í tvíhliða samstarfi.
Diljá hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hún er varaborgarfulltrúi flokksins í Reykjavík og hefur hún átt sæti í endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar. Hún tók sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir þingkosningarnar árið 2009. Þá var Diljá annar varaformaður Sambands ungra sjálfstæðismanna 2007-2009 og varaformaður Heimdallar 2009-2010 og sat í stjórn Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík 2016-17, svo dæmi séu tekin.
Diljá mun taka sér leyfi frá störfum sem aðstoðarmaður frá 17. maí til þess að vinna að framboði sínu.