Kveður Morgunblaðið eftir 42 ár

Auður Jónsdóttir stimplar sig út á Mogganum í síðasta sinn.
Auður Jónsdóttir stimplar sig út á Mogganum í síðasta sinn. mbl.is/Valdís

„Þetta hefur verið góður tími,“ segir Auður Jónsdóttir sem síðdegis í gær stimplaði sig út á Morgunblaðinu eftir að hafa starfað þar í í 41 ár, 11 mánuði og 16 daga. Langur starfsferill er að baki.

„Í öll þessi ár hefur mér liðið afar vel á þessum góða vinnustað sem hefur alltaf reynst mér vel. Ég tel mig líka heppna að hafa fengið að vinna með frábærum hópi starfsmanna. Hef líka haft einstaka yfirmenn. Ég kveð bæði þakklát og glöð. Í öll þessi ár hefur aldrei verið dauð stund í vinnunni, sem gefið hefur starfinu mikið gildi,“ segir Auður sem lengi sinnti símsvörun. Hún var einnig í ýmsum öðrum störfum, svo sem á myndasafni, sá um dagskrá útvarps og sjónvarps, minningargreinar og var um skeið ritari fréttastjóra.

Allt fram streymir endalaust og nú tekur eitthvað nýtt við, sem Auður segist hreinlega ekki vita hvað verði. „Mér finnst ég enn ekki vera hætt á Mogganum, en nú bara held ég út í vorið og geri eitthvað skemmtilegt. Ég hef að mörgu að hverfa við starfslokin og kvíði ekki neinu. Næsta mál á dagskrá núna verður til dæmis að kaupa og koma mér fyrir í nýrri íbúð,“ segir Auður Jónsdóttir. sbs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert