Maraþonkosning um besta Fílalags-þáttinn hafin

Fílalagsbræður, Snorri Helgason og Bergur Ebbi Benediktsson, og Halldór Marteinsson, …
Fílalagsbræður, Snorri Helgason og Bergur Ebbi Benediktsson, og Halldór Marteinsson, óformlegur formaður aðdáendaklúbbs Fílalags. Ljósmynd/Samsett

Búið er að opna fyrir tilnefningar til útsláttarkeppni um besta þátt hlaðvarpsins Fílalag. Þeir Bergur Ebbi Benediktsson og Snorri Helgason hafa um árabil stýrt þættinum, þar sem þeir rekja sögu þekktra laga og tónverka og „fíla“ þau svo. Fílunin nær hámarki í hverjum þætti þegar lagið eða tónverkið er spilað í lok þáttar. 

Halldór Marteinsson, óformlegur formaður aðdáendaklúbbs Fílalags, Fílahjarðarinnar, efndi til útsláttarkeppninnar á dögunum eftir að kosning fór fram á Twitter, þar sem besti þáttur Í ljósi sögunnar var valinn. 

Bergur Ebbi Benediktsson og Snorri Helgason, þáttastjórnendur Fílalags. Bergur er …
Bergur Ebbi Benediktsson og Snorri Helgason, þáttastjórnendur Fílalags. Bergur er einna helst þekktur sem skemmtikraftur úr röðum Mið-Íslands en Snorri er mikilsvirtur tónlistarmaður. Saman voru þeir ásamt öðrum í hljómsveitinni Sprengjuhöllinni sem gerði allt vitlaust hér á landi skömmu fyrir bankahrun. Hér sjást þeir á tónleikum í október 2007. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Halldór segir við mbl.is að hann hafi verið aðdáandi Fílalags nánast frá upphafi og hafi síðar fengið útrás fyrir nördaskap sinn með því að halda utan um óformlegan aðdáendaklúbb þáttanna. Hann hefur meðal annars komið á fót facebook-hópnum Fílahjörðin og uppfærir reglulega spilunarlista á Spotify, þar sem hlusta má á öll lög sem tekin eru fyrir í þáttunum.

„Nýlega sökkti ég mér ofan í keppnina Á toppi sögunnar, sem snerist um að finna besta þáttinn af þáttunum hennar Veru Illuga, Í ljósi sögunnar. Þeir þættir eru líka í miklu uppáhaldi hjá mér og mér fannst mjög gaman að taka þátt í þeirri keppni og hvetja „mína þætti“ áfram í hverri umferð. Eftir það fannst mér liggja beint við að gera eitthvað svipað fyrir Fílalag. Þessir tveir þættir eiga það sameiginlegt að hafa stóran hóp aðdáenda sem hafa afskaplega mikinn áhuga og oft miklar skoðanir á þáttunum,“ segir Halldór við mbl.is.

Vill gefa fólki nægan tíma til að „endurfíla“

Hver þáttur af Fílalagi er að jafnaði um klukkustundarlangur. Það er því ekki lítið verk að kynna sér alla 293 klukkustundarlöngu þættina áður en sá besti er valinn og því vill Halldór að aðdáendum gefist góður tími til að hlusta á sína uppáhaldsþætti aftur.

Fyrirkomulagið núna er að maímánuður fer í að safna saman tilnefningum. Ég ákvað að hafa rúman tíma þannig að hægt sé að rifja upp katalóginn í rólegheitum fyrir þá sem það vilja. Eftir það ræðst fyrirkomulagið dálítið af fjölda þátta sem komast inn í sjálfa aðalkeppnina. Ég myndi vilja hafa riðlakeppni til að byrja með þar sem fjórir þættir eru í hverjum riðli en enda svo á útsláttarkeppni þar sem tveir þættir mætast og annar þeirra fer áfram, hvort sem það væri þá í 16 eða 32 þátta úrslitum. Stefnan er samt að hafa líka rúman tíma í kosningum þegar keppnin hefst, svona ef fólk vill hlusta á þættina áður en það tekur ákvarðanir.

Óvíst hvernig verðlaunaafhendingu verður háttað

Fílalagsbræðurnir, Bergur Ebbi og Snorri, hafa undanfarin ár haldið reglulegar „fílanir“ í beinni, þar sem venjulegur þáttur er tekinn upp nema fyrir framan aðdáendur. Hingað til hefur verið frítt inn og aðsóknin er gjarnan gífurleg, eins og blaðamaður mbl.is þekkir sjálfur – færri komast yfirleitt að en vilja. 

Halldór segir að „live-fílun“ sé líklega sá vettvangur sem henti best til þess að tilkynna um sigurvegara kosningarinnar en það sé þó enn algjörlega óráðið, kosningin sé enn bara á byrjunarstigi. 

En hver er þinn uppáhaldsþáttur?

Það er mjög erfitt að segja hver sé minn uppáhaldsþáttur. Þeir fara nú að nálgast 300, þættirnir hjá þeim. Það kitlar samt alltaf þegar þeir taka fyrir fleiri en eina útgáfu af sama laginu, eins og í bæði Try a Little Tenderness-þættinum en sér í lagi Without You, sem er alveg frábær þáttur. En svo er erfitt að toppa það þegar þeir henda sér í það að tala um frændur okkar Dani.

Fílalag má meðal annars finna á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert