„Minnir óneitanlega mikið á Fossvogsskólamálið“

Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi.
Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi. mbl.is/Sigurður Bogi

Máli leikskólans Kvistaborgar í Fossvogi svipar mjög til myglumálsins í Fossvogsskóla, að sögn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem furðar sig á því að Reykjavíkurborg taki á móti húsnæði án þess að ganga úr skugga um að allar viðgerðir hafi verið fullnægjandi.

„Ég er döpur yfir þessu, sér í lagi vegna þess að þetta minnir óneitanlega mikið á Fossvogsskólamálið,“ segir Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Eins og mbl.is greindi frá fyrir helgi kom upp leki í húsnæði Kvistaborgar síðasta vor í húsnæði sem hafði nýlega verið gert upp. Í loft­gæðamæl­ingu verk­fræðistof­unn­ar Mann­vits um sum­arið kom eitt myglu­strok út já­kvætt og var það af­hent um­hverf­is- og skipu­lags­sviði Reykja­vík­ur­borg­ar í júlí síðastliðnum. Leik­skól­inn fékk aft­ur á móti skýrsl­una um málið ekki af­henta fyrr en í mars­mánuði og er nú loks verið að skoða hvaða framkvæmdir þurfi að ráðast í húsnæðinu.

Ekki upplýst um málið strax í báðum tilvikum

Í Fossvogsskóla kom upp mygla í húsnæði sem einnig hafði nýlega verið gert upp. Hefur það dregið dilk á eftir sér, eins og rakið hefur verið í fjölmiðlum.

Hvað segir það okkur að húsnæði sé gert upp og svo skemmist það aftur, hverju er ábótavant?

„Það sem ég hef verið að spyrja mig að er hvers vegna Reykjavíkurborg tekur við húsnæði sem er ekki búið að tryggja að sé myglufrítt og án þess að fullvissa sig um að viðgerðir hafi verið fullnægjandi. Það virðist vera það sem er að klikka. Reykjavíkurborg tekur á móti húsnæðinu og það er ekki fullunnið,“ segir Valgerður.

Um það að skýrsla um málið hafi ekki verið afhent leikskólastjórnendum fyrr en í marsmánuði, tæpu ári eftir að hún var afhent umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar segir Valgerður:

„Þarna er það sama að gerast og í Fossvogsskóla, það er ekki upplýst um þetta strax. Það liðu nokkrir mánuðir þar til að fólk fékk að vita að það var myglu að finna í skólanum og þyrfti að rýma hann.“

Starfsemi Kvistaborgar hefur verið færð í annað húsnæði og er …
Starfsemi Kvistaborgar hefur verið færð í annað húsnæði og er nú verið að skoða hvaða framkvæmdir þurfi að ráðast í. Myndin er úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Segir viðhaldsleysið farið að bíta

Aðspurð segir Valgerður það á hreinu að það hafi neikvæð áhrif að fara ekki í framkvæmdir strax.

„Auðvitað, ef þú leyfir þessu að grassera og malla verður ástandið verra og kostnaðurinn þeim mun hærri þegar ráðast þarf í viðgerðir.“

Valgerður kallar eftir því að betur sé staðið að viðgerðum hjá borginni og gengið úr skugga um að þær séu fullnægjandi.

„Innri endurskoðun gaf út skýrslu árið 2019. Einn af punktunum í skýrslunni var sá að það þyrfti að tryggja betra viðhald í skólanum. Þannig að þetta viðhaldsleysi er svolítið að bíta og það verður okkur svo dýrt vegna þess að lítill leki er bara orðinn að risastóru máli,“ segir Valgerður.  

Ætlar að kalla eftir upplýsingum

Í bréfi Guðrúnar Gunnarsdóttur leikskólastjóra til foreldra um málið kom fram að hún hefði ætíð óskað eftir betri sýnatöku vegna mögulegrar myglu í Kvistaborg en talað fyrir daufum eyrum. Þá greip hún til þess ráðs að panta sjálf sýnatöku frá Eflu verkfræðistofu fyrir Kvistaborg.

„Það sem sló mig svo var það að stjórnandinn var í þessu tilfelli sjálf búin að biðja um mælingar og úttektir vegna leka og það var ekki brugðist við því. Svo hún fór sjálf fram hjá borgarkerfinu og óskaði eftir þessu við verkfræðistofuna. Ég  átta mig ekki á því að Reykjavíkurborg hafi ekki brugðist strax við vegna þess að þarna erum við í miðjum Fossvogsskóla líka. Auðvitað veltir maður fyrir sér hvort fleiri hafi verið að kvarta og hvort fleiri skemmdir séu í skólum og leikskólum, stjórnendur hafi verið að kvarta án þess að á þá hafi verið hlustað. Þetta eru upplýsingar sem við þurfum að kalla eftir,“ segir Valgerður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert