Ég er fædd hér hinum megin við götuna, í svefnherbergi sem er yfir bakaríinu. Ég ólst upp hjá afa mínum og ömmu, en amma hataði ketti, hún var ekkert hrifin af dýrum almennt,“ segir Herdís Storgaard þar sem hún bendir út um gluggann á íbúð sinni við Hringbraut, en að eigin sögn er hún ólæknandi kattakona.
„Þegar ég var átta ára fór ég í sveit að Eiðum þar sem ég átti að líta eftir litla frænda mínum, en ég var alltaf komin út í fjós og innan um dýrin, því mér fannst ekkert skemmtilegra. Þegar ég bjó seinna í Danmörku eignaðist ég minn fyrsta kött. Þá varð ekki aftur snúið,“ segir Herdís sem býr núna með kettinum Olla en hann verður 18 ára 22. maí næstkomandi.
„Olli kom inn í líf mitt af því ég átti svo erfitt með að vera kattarlaus eftir að Jordan drapst. Jordan var köttur sem ég fékk frá Kattholti, hann var sá eini meðal margra katta þar sem gerði sig til fyrir mig og reyndi að ná athygli minni. Hann lét skýrt í ljós að hann vildi fara heim með mér. Jordan var rosalega fallegur köttur og Brian Pilkington teiknari hefur gert hann ódauðlegan því hann fékk hann lánaðan til að nota hann sem módel í bók um íslensku dýrin.“
Herdís segir að Jordan hafi verið til þó nokkurra vandræða, því hann gerði sig víða heimakominn.
„Hann var alltaf á þvælingi, fór inn í Háskólabíó, Hótel Sögu og út um allt. Ég hljóp hér um allt hverfið að sækja hann hingað og þangað, jafnvel um miðjar nætur. Þegar forseti Írlands kom hingað mætti Jordan þar í móttökuna. Hann var svo mikil félagsvera og fór líka mikið á barina í miðbænum. Vinkona mín, sem er í andlegum málefnum, hélt því fram að það væri einhver að drekka í gegnum hann,“ segir Herdís og hlær.
„Ég var mjög hrædd um að einhver gerði honum mein þegar hann var á djamminu í miðbænum, en hann lenti aldrei í neinu slíku. Vegna þessa flækings á honum þá endaði þetta illa, ég var vakin um miðja nótt þegar maður bankaði hér upp á sem hafði séð þegar keyrt var á Jordan. Honum hafði tekist að skríða hér yfir Hringbrautina og hann lá við Grund, hryggbrotinn. Það varð að aflífa hann. Ég var alveg miður mín, því ég hafði átt kött á undan Jordan sem ég missti líka undir bíl og þá var ég harðákveðin í að eiga aldrei kött hér ofan í umferðarþungri Hringbrautinni. Ég gat bara ekki staðist það að taka að mér kött þegar vinafólk mitt keypti hús í Hafnarfirði sem fylgdi köttur fyrri eiganda. Börnin voru með ofnæmi svo ég tók kisa að mér. Því miður var keyrt á hann við Brávallagötu. Ég var friðlaus að fá mér annan kött og þannig kom Jordan inn í líf mitt. Hann bjó hér hjá mér í tíu ár. Það var sama sagan; ég þrjóskaðist við og ætlaði ekki að fá mér annan kött. Þegar vinnufélagi minn auglýsti eftir eiganda fyrir Olla, sem var einn þriggja kettlinga sem læðan hans hafði eignast og gekk ekki út, þá tók ég hann að mér. Læðurnar systur hans voru kelnar en enginn vildi fressið Olla, því hann var alltaf í felum og mjög ófélagslyndur. Hann lóðar við að vera einhverfur.“
Herdís segir að Olli hafi ekki verið kelinn köttur, en þó hafi það skánað með hækkandi aldri.
„Fyrstu fjögur árin var hann ekkert hrifinn af því að búa hér, en svo ákvað hann að gefa sig að lokum. Hann er svo mikið músarhjarta, hann er hræddur við öll hljóð og er fyrir vikið ekkert að þvælast út um allt. Hann hefur aldrei farið út að framanverðu þar sem Hringbrautarumferðin er, heldur aðeins út í bakgarðinn og hættir sér örlítið út fyrir lóðarmörk. Um leið og hann heyrir hljóð kemur hann til baka. Fyrir vikið er hann enn á lífi, því hér hefur verið keyrt yfir mjög marga ketti.“ Kattaheimurinn er skemmtilegur og Olli tileinkaði sér samfélagsmiðlana, hann stofnaði sína eigin síðu á facebook og eignaðist fljótt gríðarlegan fjölda vina bæði hér heima og úti um allan heim.
„Hann eignaðist einstaklega góða vinkonu, eiginlega unnustu, læðuna Jósefínu Dietrich á Akranesi. Hún var eðalborin og fræg fyrir að vera hagmælt, hún hefur gefið út ljóðabók sem við fengum áritaða í pósti frá frökeninni. Vinátta þeirra Olla hófst á því að Jósefína fékk ekki einn tiltekinn ost og Olli ákvað að senda henni slíkan ost í pósti. Þannig urðu þau perluvinir. Olli er ekki með bílpróf og gat ekki heimsótt fröken sína, hann reyndi að verða svo hugrakkur að þora að fara með strætó á Akranes, en af því varð ekki, því Olli er ekki hugrakkur. Enda þurfa ekki allir að vera hugrakkir,“ segir Herdís og bætir við að Olli stjórni á heimilinu.
„Hann rekur mig hiklaust í rúmið ef honum finnst ég vaka of lengi fram eftir.“
Herdís segir að Olli sé svo blíður og góður að hann hafi aldrei veitt fugl.
„Það er stórkostlegt að sjá hvernig svartþrastaparið sem heldur til hér í garðinum treystir Olla. Þegar hann liggur þar í sólbaði heyri ég fuglana aldrei skríkja til varnaðar, þeir éta rétt við nefið á honum. En þegar ég heyri varúðarskræki fuglanna veit ég að kötturinn Kanill er mættur út í garð. Hann býr hér í næsta húsi og er mjög skemmtilegur, en hann má ekki vita það, því hann er fljótur að ganga á lagið og ofmetnast. Kanill er fylginn sér og hann hefur áttað sig á að það er miklu betri matur hér en heima hjá honum. Hann sætir lagi að koma hingað inn og éta matinn hans Olla. Hann hreiðrar stundum um sig og leggur sig hér í íbúðinni, hann er hálfvegis fluttur inn. Olli segir ekkert við þessu, af því hann er yngri. Þegar Olli hittir aðra ketti í hverfinu sem eru jafnaldrar eða yngri, þá eru slagsmál. Nýlega lenti hann í svo hörðum slagsmálum að ég þurfti að fara með hann til læknis. Hann ver sitt svæði,“ segir Herdís og bætir við að Olli sé að mörgu leyti afar sérstakur.
„Hann hefur mjög hvell hljóð og þegar hann mjálmar er það ekki ólíkt mjálmi síamskatta. Hann segir „æi“ þegar ég set hann í búrið til að fara til dýralæknis, honum er óskaplega illa við það.“
Herdís segist ekki vita hvort hún treysti sér til að taka annan kött eftir lífdaga Olla.
„Ég starfa í útlöndum og þarf mikið að láta passa hann. Reyndar er ég með tvo eðalkattapassara; annars vegar vinkonu mína sem er að verða áttræð og hins vegar níræðan mann sem býr hér uppi á lofti. Þetta er samt svo mikið álag og mig langar að ferðast mikið. Olli er hraustur og hann getur átt nokkur góð ár í viðbót. Kettir ná háum aldri ef þeir eru við góða heilsu. Ég man eftir tveimur læðum sem Katrín Fjeldsted átti; önnur varð 21 árs en hin 20 ára. Þær sátu alltaf á grindverkinu við Hólatorg á morgnana í von um klapp frá vegfarendum á leið til vinnu.“