Útlit fyrir að sóttkvíarhótelin fyllist

Sóttkvíarhótelið við Katrínartún er í húsnæði Fosshótels Reykjavíkur.
Sóttkvíarhótelið við Katrínartún er í húsnæði Fosshótels Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Von er á þremur flugvélum frá skilgreindum áhættusvæðum til landsins í dag og öðrum þremur á morgun. Annar umsjónamanna sóttkvíarhótelsins við Þórunnartún segir að líklega þurfi Rauði krossinn að opna þriðja sóttkvíarhótelið vegna þessa. 

„Við vorum að losa fullt af herbergjum í gær svo það eru svolítið mörg herbergi laus, sem er gott. Það gæti verið að við fyllum öll herbergin á morgun svo þetta er spursmál um það hvort við komum farþegum úr Póllandsvélinni fyrir, en þeir koma til okkar eftir miðnætti á morgun,“ segir Áslaug Ellen Yngvadóttir, annar umsjónarmanna sóttkvíarhótelsins.

„Það er mjög líklegt að við séum að fara að opna þriðja húsnæðið fyrir sóttkvína á morgun eða hinn.“

Fólk ánægðara en síðast

Aðspurð segir Áslaug að það hafi gengið merkilega vel með framkvæmdina á sóttkvíarhótelinu síðan í lok apríl þegar fólk frá áhættusvæðum var skyldað til að sæta sinni sóttkví þar, eftir að lög sem heimiluðu slíkt voru samþykkt á þingi. Fyrr í apríl hafði verið ráðist í framkvæmdina, á forræði stjórnvalda, án þess að lagastoð væri til staðar.

„Við höfum fengið mjög fáar kvartanir og það er meiri skilningur núna en síðast. Þetta var náttúrulega unnið með miklu betri fyrirvara núna heldur en fyrsta apríl. Flestir eru frekar ánægðir og það fer vel um alla. Svo er þetta náttúrulega frítt, það skaðar ekki,“ segir Áslaug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert