„Útlitið leyfir okkur að vera bjartsýn“

Hópsmit kom nýverið upp í Þorlákshöfn og dró það dilk …
Hópsmit kom nýverið upp í Þorlákshöfn og dró það dilk á eftir sér víðar á Suðurlandi. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Líðan þeirra sem smitast hafa af kórónuveirunni í Þorlákshöfn, vegna hópsmits sem kom upp í bænum, er eftir atvikum góð, segir Elín Freyja Hauksdóttir, umdæmislæknir á Suðurlandi.

Útlitið er að hennar sögn gott, fáir hafa greinst utan sóttkvíar síðustu daga og því ættu hlutirnir að færast í eðlilegra horf en starfsemi hefur víða verið hætt á þeim svæðum sem mörg smit hafa greinst, svo sem í skólum og fyrirtækjum. 

„Útlitið leyfir okkur að vera bjartsýn. Ný smit síðustu daga hafa öll verið í sóttkví og tengst inn á vinnustaðinn þar sem hópsmitið kom upp,“ segir Elín við mbl.is. 

Smit teygja sig út fyrir Þorlákshöfn í „einhverjum tilfellum“

Skimaðir voru um 200 einstaklingar vegna smits sem tengdist skóla í Þorlákshöfn og hafa allir reynst neikvæðir. Elín segir að smit á Þorlákshöfn teygi sig í einhverjum tilfellum út fyrir bæjarmörkin, til Reykjavíkur, á Selfoss, Stokkseyri og Eyrarbakka. 

„Þetta er fólk á vinnualdri í raun og veru,“ segir Elín um aldur þeirra sem hafa smitast. 

„Hópsmitið kemur auðvitað upp á vinnustað. Svo er eitthvert yngra fólk, já, börn og fjölskyldur þeirra, sem hafa smitast til að mynda. Mér skildist að líðan þessa fólks sé þokkaleg, engin alvarleg veikindi og engar innlagnir.“

Elín segir að heilbrigðisstarfsfólk á Suðurlandi sé vel saman stillt og geti vel unnið saman þrátt fyrir að vegalengdir milli bæja á svæðinu séu oft langar. Sjálf er hún á Höfn í Hornafirði, sem er ekki beint í skreppfjarlægð frá Þorlákshöfn þrátt fyrir að tilheyra sama læknaumdæmi.

„Við höfum lært heilmikið á þessu eina og hálfa ári og höfum slípað okkur vel saman. Við getum unnið sem einn þó svo fjarlægðirnar séu miklar. Sérstaklega þegar við erum með svona gott fólk sem stendur vaktina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert