Var enn að ógna fólki þegar lögreglan mætti

Lögreglumaður að störfum. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti.
Lögreglumaður að störfum. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilkynning um mann sem hafði verið að ógna fólki í miðbæ Reykjavíkur barst lögreglu klukkan sjö mínútur yfir sjö í gærkvöldi. Þegar lögregla kom á vettvang var maðurinn enn að ógna fólki og var hann því handtekinn. Maðurinn var í mjög annarlegu ástandi og var vistaður í fangageymslu þangað til af honum rynni.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram á dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Nokkuð var um minni háttar slys, þjófnað og ölvunarakstur. 

Á öðrum tímanum í nótt barst tilkynning um mann sem var sofandi fram á stýrið í bifreið sinni en hann var talinn ölvaður. Í ljós kom að bifreið hans var eldsneytislaus og maðurinn allsgáður.

Þá var ekið á ungan dreng á hjóli í Reykjavík rétt fyrir klukkan sex í gærkvöldi. Drengurinn var fluttur á slysadeild en áverkar hans virðast hafa verið minni háttar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert