Fjöldi í sóttvarnahúsum fer yfir 400 á morgun

Sóttvarnahús í Þórunnartúni.
Sóttvarnahús í Þórunnartúni. mbl.is/Árni Sæberg

Útlit er fyrir að tvö af þremur sóttvarnahúsum muni svo gott sem fyllast í kvöld. Nú dvelja um 380 manns í sóttvarnahúsum og mun sú tala að öllum líkindum fara eitthvað yfir 400 á morgun. Áslaug Ellen Yngvadóttir, einn umsjónarmanna sóttvarnahúsa Rauða krossins, segir að verið sé að búa til rými fyrir farþega frá Póllandi sem koma til landsins seint í kvöld. 

„Það eru enn einhver herbergi laus á þeim tveimur sem hafa verið opin og það er alveg útlit fyrir að það muni fyllast. En við viljum passa að hafa nægt pláss fyrir vélina sem kemur frá Varsjá í kvöld af því það eru yfirleitt svo stórar vélar,“ segir Áslaug í samtali við mbl.is.

Í dag verður opnað nýtt farsóttarhús fyrir komufarþega í Hótel Kletti við Mjölnisholt í Reykjavík. Fyr­ir hef­ur Rauði kross­inn um­sjón með sóttvarnahúsum á Foss­hót­el Reykja­vík, Hót­el Stormi og Hót­el Hall­ormsstaðaskógi. Sem fyrr er svo Fosshótel á Rauðarárstíg notað fyrir innanlandssmit og hælisleitendur sem hingað koma.

Nýjasta sóttvarnahús Rauða krossins er á Hótel Kletti í Mjölnisholti.
Nýjasta sóttvarnahús Rauða krossins er á Hótel Kletti í Mjölnisholti. Ljósmynd/Hótel Klettur

Líðan gesta almennt góð

Áslaug segir að vikulega komi upp nokkur smit að jafnaði en að ekki sé algengt að upp komi alvarleg veikindi hjá þeim sem smitast. Fari svo er þeim komið undir læknishendur eins fljótt og auðið er. Almennt segir hún að líðan gesta í farsóttarhúsum sé góð.

„Það koma reglulega koma upp smit, kannski ekki alla daga, en kannski svona nokkur smit á viku. Það hefur ekki verið mikið um alvarleg veikindi hjá okkur og ef svo er þá er fólki bara komið til þeirra sem geta hlúið að því betur. Almennt gengur þetta bara vel annars, við erum orðin ansi vön og þjálfuð í þessari starfsemi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert