Hegðun eldgossins breyttist í nótt

Hraunstrókarnir urðu 200 til 300 metra háir í nótt.
Hraunstrókarnir urðu 200 til 300 metra háir í nótt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Virkni eldgossins í Geldingadölum breyttist rétt fyrir miðnætti í nótt og koma núna sitt á hvað háir hraunstrókar eða engir upp úr virka gígnum. Hraunstrókarnir voru 200 til 300 metra háir í nótt. Náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir ekki ljóst hvort einhver munur sé á magninu á hrauninu sem vellur upp úr gígnum. 

„Þetta er ákveðin púlsavirkni. Þetta byrjaði rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi. Þá tókum við eftir lækkun á óróa og höfðum samband við almannavarnir. Stuttu síðar jókst þessi virkni. Svo fóru að koma svona púlsar þar sem virknin datt alveg niður inn á milli. Svo byrjaði þetta aftur,“ segir Elísabet Pálmadóttir náttúruvársérfræðingur. 

„Klárlega breyting á hegðuninni“

Hún segir erfitt að segja til um það hvort virknin sé meiri en hún var, í það minnsta sé hún öðruvísi. 

„Þetta er klárlega breyting á hegðuninni en ég veit ekki hvort það sé einhver munur á magninu sem er að koma upp,“ segir Elísabet. 

Hún segir þessa hegðun þó ekki óvenjulega í eldgosum. Spurð um það hvers vegna hegðunin hafi breyst segir Elísabet ýmsar kenningar um það. 

„Þetta er þrýstingsbreyting, það er eitthvað sem er að koma í veg fyrir að efnið komist upp í einhvern tíma. Svo fær það einhvern auka kraft, brýst í gegnum eitthvað eða hvernig sem það er.“

200 til 300 metra háir strókar

Eldfjalla og náttúruvárhópur Suðurlands greindi frá því í nótt að sannkallaðir risastrókar hafi staðið upp úr virka gígnum í Geldingadölum skömmu eftir miðnætti. 

Gígurinn er áætlaður um 45-50 metra hár og má því ætla að strókarnir hafi farið 200-300 metra upp frá hrauntjörninni sem mallar inni í miðjum gígnum,“ segir í færslu hópsins á Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert