Katrín María nýr skólastjóri Lýðskólans á Flateyri

Frá útskrift Lýðskólans á Flateyri í gær.
Frá útskrift Lýðskólans á Flateyri í gær. Ljósmynd/Aðsend

Katrín María Gísladóttir mun taka við af Ingibjörgu Guðmundsdóttur sem skólastjóri við Lýðskólann á Flateyri. Frá þessu var greint við útskrift skólans sem fór fram í gær. 

Katrín María er Flateyringur. Hún er BA í sálfræði frá Háskólanum á Akureyri (2011) og með meistaragráðu í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst (2017). Katrín María er nú aðstoðarskólastjóri Lýðskólans á Flateyri en var áður verkefnastjóri tungumálakennslu flóttabarna hjá Ísafjarðarbæ og kennari við Grunnskólann á Flateyri. Hún hefur einnig frá árinu 2019 átt sæti í stjórn Lýðskólans og þekkir því starf skólans afar vel.

Útskriftin var sú þriðja frá stofnun skólans og var henni streymt beint á facebooksíðu skólans vegna samkomutakmarkana. 

32 nemendur útskrifuðust frá skólanum að þessu sinni, 17 af námsbrautinni Hafið, fjöllin og þú og 15 af námsbrautinni Hugur, heimurinn og þú.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ávarpaði nemendur um fjarfundabúnað og óskaði þeim til hamingju með daginn. Hún sagði Lýðskólann efla nemendur sína sem einstaklinga en einnig bæði samfélagið í kring og landið allt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka