Klukkurnar á Garðatorgi ósammála

Þessi mynd barst mbl.is af turninum á Garðatorgi. Ekki hafa …
Þessi mynd barst mbl.is af turninum á Garðatorgi. Ekki hafa enn fengist upplýsingar um hvað tímanum líður hinum megin á turninum. Ljósmynd/Aðsend

Svo virðist sem vísarnir á klukkunum á turninum á Garðatorgi í Garðabæ séu eitthvað ósammála um hvað tímanum líður. Fjórar klukkur eru á turninum, ein á hverri hlið, og þær tvær sem sjást á mynd sem barst mbl.is sýna annars vegar að klukkan sé 20 mínútur í átta og tíu mínútur gengin í ellefu hins vegar. 

Hulda Hauksdóttir, upplýsingafulltrúi Garðabæjar, segir við mbl.is að þessi skekkja gerist endrum og eins og sé á vitorði margra íbúa í kringum turninn. Vandamálið segir hún að sé í raun veðurfræðilegs eðlis en svo virðist sem vindur feyki vísunum í bandvitlausa átt þegar hvessir.

Hægara sagt en gert að laga klukkurnar

„Þetta hefur verið vitað lengi, já, og þetta er eitthvað sem hefur verið gerð úttekt á. Það sem í raun og veru gerist er að vindur breytir því hvert vísarnir snúa,“ segir Hulda. 

Spurð að því hvers vegna klukkurnar eru ekki lagaðar þannig að vindur geti ekki lengur feykt þeim í gegnum tíma og rúm segir Hulda að það sé hægara sagt en gert.

„Það þarf í rauninni að ráðast í töluverðar aðgerðir þarna til þess að laga þetta og skipta út tæknibúnaði, sem er flókið og umfangsmikið verk.“

Þangað til verða Garðbæingar bara að velja eftir hvaða tíma þeir ráðstafa degi sínum – svo sem hentugt að geta valið hvort maður sé of snemma í því eða að verða of seinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert