Kolanám á Íslandi er umfjöllunarefni nýútkominnar bókar eftir dr. Richard Pokorný, yfirmann umhverfisfræðadeildar við J.E. Purkyne-háskólann í Tékklandi, og fleiri. Heiti bókarinnar á ensku er Mineral Resources in Iceland: Coal Mining og útgefandi er Cambridge Scholars Publishing.
Þar er rakin saga vinnslu surtarbrands og undirtegunda hans, viðarbrands og leirbrands, en það eru einu kolin sem finnast á Íslandi, að sögn Pokornýs. Að baki bókinni er tíu ára rannsóknavinna sem hófst þegar hann vann við rannsóknir hjá Náttúrufræðistofnun Íslands árið 2012. Í bréfi til Morgunblaðsins kvaðst hann hafa lesið margar greinar í gömlum íslenskum dagblöðum á vefnum timarit.is, þar á meðal úr Morgunblaðinu, við rannsóknir á kolanáminu.
Í fréttatilkynningunni segir að Ísland sé þekkt sem „land elda og ísa“. Þeir sem kynnist landinu vel komist að því að íbúar þess séu fullir eldmóðs. Þeir séu hjartanlegir, heiðarlegir og stoltir af forfeðrum sínum. Bókin er tileinkuð Íslendingunum sem unnu við kolanámið á Íslandi á árum heimsstyrjaldanna á síðustu öld. Framlag þessa fólks hafi hjálpað þjóðinni að komast af á erfiðum stríðstímum og þegar viðskiptabönn voru í gildi.
Höfundarnir, sem eru sérfræðingar í jarðfræði og steingervingafræði undir stjórn dr. Pokornýs, unnu í nær áratug á vettvangi og við rannsóknir að undirbúningi og ritun bókarinnar. Um er að ræða fyrsta heildstæða yfirlitið um sögu kolanáms á Íslandi. Einnig geymir bókin viðamikla inngangskafla um jarðfræði landsins og uppruna kolalaganna. Einnig er fjallað um sögu rannsókna, aðferða við námavinnsluna og kolanámufélög í bókinni. Lýsing á kolanámunum er þó kjarni bókarinnar allt frá stórum námum niður í litlar námur sem bændur nýttu sér.
Dr. Friðgeir Grímsson, plöntusteingervingafræðingur og vísindamaður við háskólann í Vínarborg, er einn höfunda bókarinnar.
„Surtarbrand er helst að finna á Vestfjörðum, á Vesturlandi, Norðurlandi og á Austfjörðum þar sem berg er elst á Íslandi,“ sagði Friðgeir. Hann sagði talið að elsta berg á Íslandi, yst á Vestfjörðum, sé um það bil 15 milljón ára gamalt. Kolaleifarnar séu því að hámarki 15 milljón ára gamlar.
Friðgeir sagði að íslensku kolin hafi verið rannsökuð. „Úr einu kílói af kolum frá Íslandi færðu 15-20 megajúl af orku. Kol frá Bretlandi, Tékklandi, Þýskalandi eða Póllandi gefa 25-35 milljón joule af orku úr einu kílói sem samsvarar 7-9 kWh. Íslensku kolin eru ekki eins góð og kolin frá meginlandinu,“ sagði Friðgeir. Hreinleiki kolanna skiptir miklu en íslensku kolin er „óhreinni“ en t.d. kolin frá meginlandinu. Hátt hlutfall af rofrænum efnum eins og elfjallagjósku og ösku í kolunum rýrir orkugildi þeirra.
Friðgeir sagði að nú sé enginn grundvöllur fyrir kolavinnslu hér. Öðru máli gegndi þegar verð á kolum rauk upp úr öllu valdi og það lokaðist fyrir kolaverslun á styrjaldartímum. Íslendingar fóru þá að nýta íslensku kolin til að bæta úr brýnni þörf. Um leið og heimsstyrjöldunum lauk lagðist kolavinnslan hér af vegna þess að gæði kolanna voru lítil og vinnslan dýr.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. apríl.