Verulegar breytingar á vinnutíma vaktavinnufólks hjá ríki og sveitarfélögum tóku gildi um mánaðamótin eftir vandasaman og flókinn undirbúning.
Alls eru um 7.300 starfsmenn í vaktavinnu hjá ríkinu. Fram kom í máli Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra á Alþingi í vikunni að stytting vinnuskyldu vaktavinnufólks myndi að öðru óbreyttu mynda mönnunargat sem gæti orðið allt að 780 stöðugildi. Hins vegar væri gert ráð fyrir að þetta gat mætti manna að mestu með breytingum á starfshlutföllum vaktavinnufólks í hlutastarfi.
Áhrif styttingarinnar úr 40 tímum í 36 eða jafnvel niður í 32 stundir verða mismikil eftir stofnunum. Á sumum er flest vaktavinnufólk í 100% starfi og þar þarf að ráða nýtt fólk til að fylla upp í mönnunargatið. Á öðrum er fjöldi starfsmanna í hlutastörfum og munu margir bæta við sig starfshlutfalli. Vaktavinnufólk er um þriðjungur ríkisstarfsmanna, langflestir við störf í heilbrigðisþjónustu og í löggæslu.
Stærsti hópurinn er á Landspítalanum og mun breytingin hafa áhrif þegar vinnutími um 3.000 vaktavinnustarfsmanna fer úr 40 stunda vinnuskyldu jafnvel niður í allt að 32 tíma að sögn Gunnars Ágústs Beinteinssonar, framkvæmdastjóra mannauðsmála. Hann segir þetta verkefni „Betri vinnutími“ sennilega vera mestu byltingu á íslenskum vinnumarkaði í 40 ár. „Verkefnið hefur reynst gríðarlega viðamikið og margs hefur þurft að gæta við aðlögun vakta- og vinnufyrirkomulags að breyttum vaktakafla kjarasamninga þannig að ekki verði röskun á okkar viðkvæmu þjónustu. Mannauðsfólk og stjórnendur spítalans hafa kappsamlega unnið að undirbúningi verkefnisins frá upphafi þess og það er útilokað annað en að það trufli starfsemi okkar að einhverju leyti, en við lítum á þetta sem jákvætt framfaraskref,“ segir hann.
Gunnar segir stjórnendur spítalans hafa staðið í ströngu að raða saman vöktum og gefa út nýjar vaktaáætlanir fyrir breytt vinnufyrirkomulag og það hafi gengið mjög vel. Þá sé launamyndun vaktavinnustarfsmanna að breytast í grundvallaratriðum þar sem nýir launamyndandi þættir koma inn, aðrir breytast og enn aðrir detta út.
„Áskorunin sem stjórnendur spítalans hafa staðið frammi fyrir er að mönnunargat mun myndast í kjölfar þessara breytinga en þó hafa hækkanir á starfshlutfalli núverandi starfsmanna farið fram úr vonum og von er á að einhverjir starfsmenn muni áfram óska eftir auknu starfshlutfalli eftir að vinnutímabreytingarnar taka gildi. Þá munu verða ráðnir inn nýir starfsmenn fljótlega. Eins og staðan hjá okkur er í dag vantar um 120 stöðugildi til þess að loka ætluðu mönnunargati en rétt er að geta þess að heildarfjöldi stöðugilda vaktavinnumanna er um 2.200 á Landspítala,“ segir hann í skriflegu svari.
Spurður hvort breytingin muni hafa áhrif á skurðaðgerðir segir hann enn unnið að útfærslu verkefnisins á skurðstofum og því liggi möguleg áhrif ekki fyrir.
Hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu starfa nær allir lögreglumenn á 100% vöktum og hefur breytingin mest áhrif í almennu deildinni og umferðardeild. Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn segir verkefnið á almennu deildinni, sem er fjölmennust, í sjálfu sér ekki tæknilega erfitt. Lögreglumenn eru með valkvætt vaktakerfi og með þessum breytingum gæti vöktum hvers og eins fækkað um tvær eða þrjár í mánuði. Gert er ráð fyrir að ráða þurfi 16 nýja lögreglumenn á almennu deildinni vegna vinnutímabreytinganna og viðbótarráðningar starfsmanna hjá embættinu eru alls 23 eða 24.
„Við erum með allt klárt og það eina sem fólk mun mögulega sjá 1. maí eru nokkur ný andlit sem við erum búin að ráða. Það á ekki að verða nein þjónustuskerðing, alla vega miðað við þær forsendur sem við miðum við,“ segir Ásgeir en þær forsendur byggjast m.a. á að nægir fjármunir fáist til verkefnisins.
Hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins eru vinnutímabreytingarnar innleiddar í tveimur áföngum á þessu og næsta ári. Stéttarfélag slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna samdi um það á sínum tíma að sögn Jóns Viðars Matthíassonar slökkviliðsstjóra. 1. maí næstkomandi verður stytting vinnuvikunnar 13 mínútur fyrir hverja vakt en breytingin í heild verður svo innleidd að ári.
„Við erum búin að leysa þetta með því að fjölga hjá okkur mönnum,“ segir hann en 14 manns hafa fengið fastráðningu hjá slökkviliðinu í tengslum við þessar breytingar.
Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn hafa líka samið um lengingu sumarorlofs í 240 stundir eða sex vikur í stað orlofs, sem var mislangt eftir aldri. Því þarf einnig að ráða eitthvað fleiri sumarstarfsmenn.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. apríl.