Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur verið kölluð út að Búrfellsgjá í grennd við Heiðmörk til að slökkva eld sem logar í mosa.
Í samtali við mbl.is segir Bjarni Ingimarsson, aðstoðarvarðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, að slökkvilið hafi átt erfitt með að komast að svæðinu til að gera út af við eldinn, sem hafði fest sig í mosa í hrauninu. Var því brugðið á það ráð að fá þyrlu til aðstoðar.
Ekkert liggur enn fyrir um orsök eldsins, en slökkviliðið fékk fyrst tilkynningu um reyk á svæðinu á sjöunda tímanum.