„Ég ákveð engar ferðir nema með skömmum fyrirvara. Veðurspá verður að liggja fyrir og með tjald að vopni þarf ekki að panta gistingu sem þarf að greiða fyrir jafnvel þótt veðurspá sé vond og maður hætti við ferðina. Ef ég get valið að gera eitthvað í góðu eða slæmu veðri þá vel ég góða veðrið. Það er ekkert mjög flókið.“ Þetta segir Haukur Eggertsson, verkfræðingur og ferðalangur, en líklega er ekki að finna marga landsmenn sem hafa ferðast jafn víða um landið fyrir eigin vélarafli og hann. Síðustu 25 árin hefur hann á hverju ári farið í fjölmargar ferðir um landið, bæði upp á hálendi og það sem hann kallar byggðaferðir, þ.e. láglendisferðir sem eru ekki of langt frá byggð. Þá hefur hann reglulega undanfarin ár farið í hjólaferðir erlendis, frá tveimur vikum upp í tvo mánuði.
Fyrir fimm árum eignuðust Haukur og eiginkona hans son, en það hefur ekki stoppað hann né þau, því á eins árs afmælisdaginn var sonurinn með þeim í tveggja vikna hjólaferð um Danmörku og hefur síðan farið í fjölmargar hjólaferðir í hjólavagninum, hvort sem það er erlendis eða upp á fjöll.
Haukur ræddi við blaðamann um hvað það er sem drífi hann áfram í þessar ferðir, skipulagið að baki þeim, búnaðarmál, tengsl við Íslendingasögurnar, skálasöfnun og hvernig það gangi upp að taka allt að átta hjólaferðir yfir sumarið út frá vinnu.
Haukur segist skipta ferðalögum sínum upp í þrjá hluta eins og nefndir hafa verið hér að ofan; lengri hálendisferðir þar sem ferðast er með allan búnað, byggðarferðir (sem nú séu oftar en ekki með drenginn) þar sem hjólað er um þjóðvegakerfið, en samt með útúrdúrum, og komist er í vistir af og til, og að lokum útlandaferðirnar sem séu svipaðar byggðarferðum hér á landi en jafnan alltaf nær vistum og þjónustu.
Eins og sönnum verkfræðingi sæmir hefur Haukur komið sér upp nokkuð góðu skipulagi fyrir árið þegar kemur að hjólaferðum. Á vorin, þegar svokallaðir fimmtudagsfrídagar og jafnvel páskar tikka reglulega inn, segist hann annaðhvort horfa til þess að fara í lengri ferð erlendis eða í nokkrar byggðarferðir hér á landi. Á þessum tíma sé hálendið ekki heldur opið og nær þetta tímabil fram í seinni hluta júní. „Maður situr um þessa frídaga og löngu helgarnar á vorin,“ segir Haukur og bætir við að hann fylgist þá með veðrinu.
Í framhaldinu kemur sumarið þar sem hann reyni jafnan að ná einhverjum lengri hjólaferðum um hálendið. Þetta tímabil nái jafnvel fram í september eftir því hvernig gangur haustlægðanna sé. Segir hann að á lokadögum sumarsins og fram á haustið séu nokkrar leiðir sem hann sé með á radarnum og nefnir í því samhengi Trékyllisvík á Ströndum og svæðið þar í kring. Þar sé jafnan snjóþungt, en að sama skapi byrji lægðir að koma þegar snjór sé loksins að hverfa.
Eins og fram kemur í inngangsorðunum horfir Haukur til veðurspárinnar varðandi að ákveða hvaða ferðir eigi að fara. Þar af leiðandi eru ákvarðanir um næsta ferðalag jafnan teknar með skömmum fyrirvara. Þrátt fyrir það eru flestar ferðirnar mjög vel skipulagðar og segir Haukur að jafnan sé hann með alla vega 5-10 ferðir á teikniborðinu sem hann hafi legið yfir og bíði rétta veðurgluggans. Með þessu móti horfi hann helst á hvernig frídagar og helgar raðist upp og svo þegar nálgast viðkomandi helgi meti hann á hvaða landsvæði ólíklegast sé að mikil úrkoma verði og í framhaldinu skoði hann hvernig vindáttir snúi og út frá því velji hann bestu leiðina til að vera með vindinn í bakið stærstan hluta ferðarinnar og helst sól á himni á sama tíma. „Ánægjan felst í að vera frekar með meðvind en mótvind og sól og útsýni frekar en rigningu,“ segir Haukur og bætir við: „Tilgangurinn er að njóta.“
Í gegnum tíðina segir Haukur að hann hafi verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa unnið á stöðum þar sem hann hafi getað stýrt sumarfríi sínu nokkuð vel og ekki þurft að skipuleggja það upp á dag langt fram í tímann. „Ég hugsaði sérstaklega þegar ég var barnlaus um að nýta þetta mjög vel. Það var sérstakur sigur þegar maður náði langri helgi, svo rigndi þegar maður var heima í bænum og svo fór maður aftur út og fékk gott veður næstu helgi.“
Haukur segir að áhuginn á hjólaferðalögum hafi kviknað í kringum tvítugsaldurinn. Yngri systir hans hafi stuttu áður keypt sér hjólatöskur og hann hafi séð ákveðna möguleika í því og ákveðið að kaupa sér þannig líka. Vinur hans hafi stuttu síðar haldið upp á tvítugsafmæli sitt í bústað í Borgarfirði og Haukur hafi ákveðið að hjóla þangað. Fékk hann skutl upp á Þingvelli, en þaðan hjólaði hann Uxahryggi, ofan í Skorradal og yfir Hvítárbrúna og alla leið í Stóru-Skóga. Haukur lýsir þessu sem ákveðinni uppljómun. „Hugmyndin um að vera sjálfbjarga og engum háður heillar mikið sem og að geta gert það sem maður vill,“ segir Haukur. Alla vega varð þetta til þess að hann fór að fara í fleiri ferðir og meira á hálendið.
En það er ekki bara tilfinningin að geta staðið á eigin fótum sem heillaði. Haukur segir að hann leiti í þá upplifun að geta verið einn í heiminum. Það eigi við mjög marga staði hér á landi, en engu að síður hafi fáir upplifað það að vera jafnvel dögum saman einir með sjálfum sér og enga aðra nálægt – „að hafa næstum heilan landshluta fyrir sig“. Segir hann að þótt þetta hljómi kannski eins og eitthvert einbúatal og félagsfælni sé það ekki svo heldur sé þetta einstök upplifun sem allt of fáir nái að njóta á lífsleiðinni
Hinn anginn af áhuganum að fara yfir hálendið er að hans sögn kominn til vegna tengingarinnar við söguna og upplifun áanna. „Þetta voru engin smá ferðalög sem menn fóru hér áður. T.d. Norðlendingaleiðin eða jafnvel Norðlendingalægð yfir Vatnajökul,“ segir hann og bætir við að það hafi verið ótrúlegt afrek þegar fólk fór hér áður fyrr kannski norður úr landi í Keflavík eða á Snæfellsnes í ver. Það hafi verið margra daga leiðangrar yfir hálendið og oftast ekki um hásumar og innviðirnir hafi verið takmarkaðir. Hans markmið sé oft að tengja við einhverjar fornar sögur eða frásagnir af ferðum fólks áður fyrr.
Haukur segir að fyrstu ferðirnar sínar skipi ákveðinn sess í huganum og þá hafi jómfrúardómur enn verið yfir honum. Allt hafi verið nýtt og spennandi, hver ákvörðun hafi verið lærdómur og mistökin fjölmörg. Fyrsta stóra ferðin hafi verið yfir Arnarvatnsheiði, en í hana fór hann með fyrrnefndri yngri systur sinni. Það voru þrír dagar og tvær nætur í óbyggðum. Haukur segir að fyrsti lærdómurinn þar hafi verið að læra að nota vefsíðu Vegagerðarinnar varðandi færð á vegum. „Við lentum í að þurfa að leiða hjólin í drullu einhverja 10-20 km,“ segir hann. Það hafi alveg verið gerlegt, en hægt sé að finna sér skemmtilegri hluti að gera. Eftir þetta hafi hann mjög reglulega farið yfir Arnarvatnsheiði með mismunandi afbrigðum, eða 10-12 sinnum í það heila og næstum árlega síðasta áratuginn, ef frá er talið árið þegar sonurinn fæddist. „Kosturinn við Arnarvatnsheiðina er að hún er fáfarin, en þar er samt gróður og mér finnst notalegra að vera í heiðarlandslagi en bara í svörtum söndum,“ segir Haukur. Þá sé gott útsýni á heiðinni, enda sé hún nokkuð slétt og undirlagið gott með þéttum moldarslóðum. Einnig sé þægilegt að komast þangað úr borginni. „Maður tekur bara strætó í Húnavatnssýslu og svo hjólar maður áleiðis til Reykjavíkur.“ Að lokum spili inn í að hann eigi ættur að rekja á svæðið og því sé þarna fjöldi staða sem hann hafi áhuga á að skoða þar sem forfeðurnir hafi verið í smölun.
Önnur ferð sem er honum minnisstæð var fyrsta ferðin yfir Fjallabak. Haukur segir að ferðin sem slík sé í grunninn ekkert mjög merkileg. Hann hafi farið Dómadalsleið og svo niður í Skaftártungu og tekið svo rútu í bæinn. Samtals tvær nætur og þrír dagar að hjóla. Áhugi hans sé jafnan að finna leiðir sem séu fáfarnar, en þessi leið sé auðvitað með vinsælli ferðamannaleiðum á hálendinu í dag. „Ég færi aldrei þessa leið í dag, en á þessum tíma hafði ég ekki einu sinni keyrt þessa leið,“ segir hann og bætir við að síðan þá hafi hann ferðast þvers og kruss um Fjallabak, enda séu þar nánast endalausir möguleikar til að fara um. Á svipuðum tíma fór hann jafnframt í fyrstu löngu byggðarferðina sína, en þá tók hann rútu á Höfn og hjólaði svo alla firðina á Seyðisfjörð. Samtals voru það fimm nætur og sex hjóladagar.
Árið 2011 ákvað Haukur svo að fara í fyrstu utanlandshjólareisuna. Hann var þá nýhættur í þáverandi vinnu og ákvað að fara ásamt þáverandi kærustu sinni frá Danmörku til Spánar, en ferðin tók samtals um tvo mánuði. Nýttu þau tækifærið og heimsóttu ættingja beggja sem bjuggu bæði í Danmörku og Þýskalandi. Nefnir hann eitt fyndið atvik í þessari ferð sem hann muni vel eftir. Þegar þau voru nálægt Ölpunum hafi komið að svæði sem var ekki alveg jafn þéttbýlt og víðast annars staðar á leiðinni. Í leiðarbók sem hann hafði meðferðist var sérstaklega nefnt að fólk þyrfti að vista sig mjög vel því það væri engin þjónusta næstu 20 km. „Mér fannst þetta frekar fyndið eftir að hafa þverað Ísland nokkrum sinnum,“ segir Haukur. „Þetta setur í samhengi þessi forréttindi að hafa fengið að upplifa að vera án þjónustu dögum saman. Það eru glettilega fáir í Evrópu sem hafa reynt þetta.“
Árið eftir var svo komið að því að taka aðra utanlandsferð og var í þetta skiptið flogið út til Billund í Danmörku og hjólað norður Jótland og um borð í Norrænu og ferjan tekin til Færeyja. Þar hjóluðu þau um í um vikutíma og segir Haukur að líklega hafi þau náð að klára tvo þriðju hluta af vegakerfinu. Þegar komið var aftur til Íslands ákvað Haukur að halda áfram og fara norður frá Egilsstöðum á Þórshöfn og út á Font. Að lokum var endað í Reykjahverfi fyrir norðan. „Ég náði þar tveimur Þórshöfnum í einni ferð,“ segir hann.
Söguáhuginn náði líklega hámarki með ferð árið 2013 til Skotlands. Þá hafði hann nýlega lokið við að lesa bókina Auði eftir Vilborgu Davíðsdóttur, fyrstu bókina í þríleik Vilborgar um landnámskonuna Auði djúpúðgu. Gerist fyrsta bókin að miklu leyti í Suðureyjum og segist Haukur hafa verið að eltast við margt á Katanesi, Orkneyjum og Hjaltlandseyjum. Samtals heimsótti hann á þriðja tug eyja og tók á þriðja tug ferjusiglinga á ferðinni.
Árið 2015 fór hann í ferð um Írland og nýtti auðvitað tækifærið til að heimsækja ættingja, en árið eftir var örlítið hlé vegna fæðingar sonarins. Fjölskyldan hélt þó út til Danmerkur ári síðar eða árið 2017. Með í ferðinni voru Haukur, Laufey eiginkona hans, tveir fóstursynir og yngsti sonurinn. Spurður hvort ekki hafi verið erfitt að ferðast svona um á hjóli með eins árs barn segir Haukur að það hafi verið merkilega þægilegt. „Þetta var á þeim tíma sem börn sofa mikið yfir daginn. Hann var rosalega góður í vagninum og við þurftum litlar áhyggjur að hafa af honum,“ segir hann.
Næstu tvö ár fór fjölskyldan aftur út. Annars vegar til Svíþjóðar og hins vegar til Noregs. Haukur segir að söguáhuginn hafi aftur leikið stórt hlutverk og meðal annars hafi þau skoðað gömlu haugana í Uppsölum þar sem Óðinn á að vera grafinn samkvæmt sögunni. Í Noregi eltu þau svo uppi fjölda staða í tengslum við Heimskringlu sem Haukur segist hafa lesið margoft og hafi miklar mætur á.
Eins og þekkt er orðið varð árið 2020 ekki mikið ferðaár á erlendri grundu, en Haukur og sonurinn voru þó ekki af baki dottnir og fyrir utan styttri byggðarferðir tóku þeir einnig eina sjö daga ferð frá Akureyri og um Þingeyjarsýslurnar. Haukur segir að þá hafi hann reyndar fundið fyrir því að aðeins meiri óþreyja og kraftur væri kominn í drenginn. Að hjóla með hann einan á þessum aldri hafi einnig verið erfiðara en þegar fjölskyldan var saman erlendis. „Það getur verið þannig að pabbinn er búinn að vera að erfiða í mótvindi allan daginn og svo í lokin stígur mjög hress strákur út úr vagninum og vill leika, en samt á eftir að tjalda og elda,“ segir Haukur hlæjandi og bendir á að í stærri fjölskylduferðum sé hægt að deila þessum hlutverkum á fleiri.
Þegar fjöldi innanlandsferða hefur í 20-25 ár verið allt upp í átta á ári fer möguleikum á nýjum ferðum á framandi staði fækkandi. Spurður hvað það sé sem drífi hann enn áfram í að stökkva af stað nokkrum sinnum á ári til að leita nýrra ævintýra segir Haukur að það sé auðvitað alltaf gott að hafa einhvern tilgang með ferðunum, líkt og lýst hefur verið hér að framan. „En nú orðið snýst þetta líka um að ryksuga upp leiðir sem eftir eru á kortinu,“ segir hann í léttum tón og vísar þar til landakorts sem hann hefur uppfært árlega með öllum þeim ferðum sem hann hefur farið í, en kortið ber hið hógværa nafn montkortið. Á kortinu er reyndar einnig að finna gönguferðir og gönguskíðaferðir, en ekki verður annað sagt en að kortið sé orðið nokkuð þéttteiknað. Til viðbótar hefur Haukur lengi haft það að markmiði að koma að og helst gista í sem flestum fjallaskálum á Íslandi. Það eru því alls konar drifkraftar að verkum þegar kemur að hvatningu.
Það kemur kannski á óvart miðað við alla þessa notkun að Haukur segist ekki hafa keypt sér nýtt ferðahjól í 11 ár. Stafar það meðal annars af því að honum þyki enn best að vera á gamaldags 26“ fjallahjóli, meðan flest hjól í dag séu stærri og lögun fjallahjóla sé meira upprétt en hafi verið áður. Reyndar segir hann að þróun malarhjóla sé ákveðið skref aftur í gömlu hugmyndafræðina að hafa fjallahjólin ekki eins upprétt, en að hann hafi ákveðið að halda sig enn við gamla jálkinn. Um er að ræða Wheeler-fjallahjól úr áli sem upphaflega var með 3x8 gírum, en er í dag búið 3x9 gírum. Segir hann ástæðuna fyrir að hafa ekki farið í 10 eða 11 gíra að aftan vera þá að erlendis sé oft og tíðum mun auðveldara að fá varahluti eða aukakeðju í þessum stærðum. Jafnvel fáist það í stórmörkuðum. Nýrri gerðir sé hins vegar oftast bara að finna í reiðhjólabúðum sem séu ekki á hverju strái. Að vera á ódýrara hjóli hafi einnig tvo kosti. „Það eru minni líkur á að einhver steli því og ef einhver stelur því er tjónið minna.“
Haukur segist almennt velja frekar fínmunstruð dekk til að bæta rúllið. Segir hann að miðað við sinn ferðastíl þar sem tilgangurinn sé frekar að njóta og upplifa frekar en að komast hratt yfir, þurfi hann sjaldnast dekk sem auðveldi honum að taka hraðar krappar beygjur. Hins vegar fari hann stundum á belgmeiri dekk þegar hann horfi fram á að fara yfir sendnar leiðir og nefnir í því samhengi þegar hann fór frá Öskju yfir í Nýjadal. Grunnferðasettið hans að öðru leyti eru tvær afturtöskur á bögglaberanum með almennum farangri og vistum. Ofan á bögglaberanum og töskunum er hann svo með tjald og tjalddýnu. Erlendis er hann með stýristösku með helstu verðmætum og síma og á stellinu er lítil taska með pumpu, verkfærum og slöngu. Það sé reyndar eitthvað sem sé alltaf á hjólinu, óháð því hvort hann sé á ferðalagi eða að nota hjólið í að fara í vinnuna.
Skipulagning ferðanna tekur talsverðan tíma fyrir fram að sögn Hauks. Til að geta búið við að eiga fjölda ferða í bakhöndinni eftir því hvernig vindar blása þarf að vera búið að hella sér í heilmikla rannsóknarvinnu. Segist Haukur í dag almennt nota mikið til loftmyndir, t.d. á map.is, til að skoða svæði og meta hvort einhverjir gamlir stígar eða leiðir séu, enda eru ekki allir stígar inni á almennum kortum. Þá skoði hann hvort leiðir séu á milli vegabotnlanga, t.d. reiðgötur eða slíkt. „Stundum þarf maður reyndar að leiða hjól til að sameina tvo botnlanga,“ segir hann. Venjulega sé hann því með nokkuð góða mynd af því hvernig og hvert hann ætli sér að fara áður en lagt er af stað í ferð. Meðal annars hafi hann skoðað vel hvar hægt sé að komast í vatn ef farið er um þurr svæði og hvort hafa þurfi áhyggjur af að bláar línur á korti séu aðeins lækir í leysingum. Þá skoði hann hvar sé skemmtilegast að koma fyrir tjaldi ef ekki er gist í skála og áhugaverða staði að skoða í nágrenninu.
Segist hann til dæmis í dag vera með alla vega 5-10 nokkuð vel úthugsaðar ferðir í huganum. Þegar hann hafi svo klárað eina þeirra sé næsta verkefni að fylla aftur upp í með annarri hugmynd. Þá reyni hann jafnframt að vera með ferðahugmyndir nokkuð dreift um landið, bæði upp á fjölbreytni, en ekki síður til að geta átt sem mesta möguleika á góðri ferð, jafnvel þótt slæmt veður sé um mestallt land.
Spurður um næstu ferðir segir Haukur að hann horfi enn til að ná Trékyllisheiði og Ströndum. Þá eigi hann eftir Bárðargötu, Jökulheima og svæðið sunnan Vonarskarðs. Nokkrar minni ferðir séu einnig á teikniborðinu.
Varðandi frekari heilræði fyrir ferðalög sem þessi segir Haukur að hann hafi ágæta reynslu af því að ferðast yfir sumarnóttina hér á landi. Þá sé miklu minni umferð á helstu vegum, yfirleitt lygnara og gróðurangan spretti upp þegar döggvar. Einnig sé meiri værð og kyrrð fyrir þá sem leita að því. Þetta sé hins vegar alla jafna bara mögulegt í júní og júlí út frá birtu. Þá segir hann að gott sé að hafa aukahluti eins og skrúfur með sér, því slíkt eigi það til að hristast úr og týnast. „Lykilatriðið í öllum þessum ferðum er að ef maður heyrir eitthvert hljóð, skrölt eða nudd er að hætta ekki fyrr en þú finnur hvað er að. Það er alltaf eitthvað og það er ekki gaman að vera uppi á reginhálendi með brotinn bögglabera, rifið dekk eða álíka,“ segir hann og bætir við að hann hafi reynslu af því öllu. Með lagni sé alla jafna hægt að redda sér og komi teip þar sterkt inn. Segist hann meðal annars hafa reynslu af því að setja jógúrtfernu inn í dekk sem gat hafði komið á til að koma í veg fyrir að slangan myndi troða sér út. Það hafi virkað til að komast aftur til byggða. „Maður þarf útsjónarsemi til að redda sér, en maður þarf þó ekki að vera verkfræðingur,“ segir hann að lokum.