Vill fjöldahreyfingu sem hefur sterkari rödd í samfélagsumræðunni

Birgir segir mikilvægt að koma upp rödd sem geti svarað …
Birgir segir mikilvægt að koma upp rödd sem geti svarað fyrir málefni hjólreiðafólks þegar þau beri á góma í fjölmiðlum. mbl.isArnþór Birkisson

Hópurinn Reiðhjólabændur á Facebook varð fyrir nokkrum árum að einskonar óformlegum vettvangi hjólreiðafólks hér á landi þar sem voru fjölbreyttar umræður um allt mögulegt tengt hjólreiðum, en einnig hópur sem hélt utan um gríðarlega vinsælar hóphjólreiðar einu sinni í viku.

Þó hluti af æfingahlutanum hafi færst yfir til hjólreiðafélaganna er hópurinn enn virkur og í fyrra ákváðu forsvarsmenn hópsins að færa hann í formlegri átt og reyna þannig á einum stað að sameina rödd fjöldans sem er á bak við hjólreiðar. Var það gert með formlegri umsókn í Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) sem var samþykkt á aðalfundi samtakanna.

Birgir Birgisson er einn þeirra sem standa á bak við bændahópinn. Hann segir að ein ástæða þess að fara þessa formlegu leið hafi legið í því að þarna væri um sjö þúsund manna hópur sem gæti komið fram sem hagsmunahópur hjólreiðafólks í opinberri umræðu, en slíkt hefði oft á tíðum vantað, ekki síst vegna þess að fjöldann á bak við röddina vantaði oft.

„Það hafa verið margir smáir þræðir hér og þar, en það hefur ekki verið til sterk rödd hjólreiðafólks,“ segir Birgir „Landssamtökin hafa verið til lengi, en það hefur ekki tekist að fá inn þennan mikla fjölda svona ef við berum okkur saman við FÍB [Félag íslenskra bifreiðaeigenda]. Þar er talað fyrir hagsmuni allra bifreiðaeigenda, en það hefur loðað við hjólreiðar að hver svari fyrir sig og sína grein.“

Birgir tekur fram að landssamtökin hafi gert marga góða hluti og að hann sé ekki að gagnrýna það góða starf sem þar fari fram. Nefnir hann sem dæmi að stjórnendur LHM hafi átt í góðum samskiptum við sveitarfélög þegar komi að skipulagsmálum og í allskonar umsögnum við lög og reglur. „LHM er mjög gott í samskiptum við opinbera apparatið á formlegum nótum. En það vantar meira þennan óformlega mannlega vinkil sem við erum öll orðin svo vön, þ.e. samskipti og viðbrögð á augnablikinu,“ segir Birgir.

Vantar rödd þegar umræða fer af stað

Spurður út í dæmi um hver slík mál gætu verið segir Birgir að gott dæmi hafi komið upp fyrr á þessu ári í svokölluðu lögreglumáli. Þá svaraði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fyrirspurn á Facebook-síðu sinni sem virtist beinast gegn því að hjólreiðafólk nýtti sér götur til að hjóla á. Svar lögreglunnar vakti gríðarlega sterk viðbrögð hjólreiðasamfélagsins, en á því mátti skilja að athæfi hjólreiðafólksins hefði ekki verið í samræmi við lög, en flest hjólreiðafólk taldi svo ekki vera. „Það vantaði alveg að einhver innan hjólreiðasamfélagsins færi á fund lögreglunnar,“ segir Birgir og bætir við að rétt hefði líka verið að bregðast þar við með skrifum í blöð eða á öðrum opinberum vettvangi. „Við þurfum að eiga rödd þegar umræða fer af stað.“

Birgir segir það árlegan viðburð þegar umræða um hjólreiðar spretti …
Birgir segir það árlegan viðburð þegar umræða um hjólreiðar spretti fram á vorin.

Birgir nefnir einnig annað dæmi sem reglulega kemur upp og hann telur að hægt sé að vera viðbúinn fyrir. „Á hverju vori fer af stað umræða um að hjólreiðafólk fari ekki eftir lögum varðandi hjólaumferð á stígum. Þarna vantar oft rödd skynseminnar sem ýtir ekki undir skotgrafahernaðinn.“ Þannig segir hann að bæði þurfi viðkomandi að vera tilbúinn að svara því til hreinskilnislega ef einhver hjólreiðamaður sé að haga sér „eins og hálfviti“ en líka að taka umræðu á vitrænum nótum og geta borið fyrir sig reglur og lög án þess að blanda tilfinningarökum inn í. „Þessi hópur sem tekur til máls þarf að hafa rétt fyrir sér og byggja á staðreyndum. Annars er hægt að hanka fólk á einhverjum smáatriðum,“ segir hann og bætir við að ef það gerist fari umræðan alla jafna strax út í skurð aftur. Þetta eigi meðal annars við núna þegar umræðan um hjólreiðar og hestamenn hafi farið af stað í vikunni, þó að það mál virðist vera komið í góðan farveg.

„Það hefur vantað fjöldann á bak við þetta, en þarna verður vettvangur til,“ segir hann. Eins og í öðrum sambærilegum félagsskap verður kosið í stjórn félagsins og segir Birgir að vonandi muni Reiðhjólabændum takast að verða þessi rödd út á við.

Lítið brugðist við kærum hjólafólks

Fleiri almenn málefni sem tengjast hjólreiðum og hjólreiðasamfélaginu liggja á Birgi sem hann segir að vanti farveg þannig að hægt sé að koma þeim áfram. Þannig bendir hann á að fyrir nokkrum árum hafi hann skoðað námsefni þeirra sem fara í ökunám og komist að því að þar væri meira talað um að gæta þyrfti sín á sporvagnabrautum heldur en að talað væri um hjólreiðar. Sjálfur hafi hann reynt að ræða við Félag ökukennara frá árinu 2018 um þetta, en vantað að geta talað fyrir hönd stærri hóps hjólreiðafólks.

Birgir nefnir einnig að hann viti til þess að allavega sjö mál hafi verið kærð til lögreglunnar þar sem 1,5 metra reglan, um fjarlægð bifreiða frá hjólreiðafólki við framúrakstur, hafi verið brotin. Þessum málum hafi jafnvel verið skilað með miklum greinargerðum, vitni listuð upp og jafnvel myndskeið fylgt með. Hann segist telja að þessi mál hafi ekkert verið rannsökuð. „Það hefur allavega ekkert vitni fengið símtal og ekkert verið ákært. Meðan ekkert er gert verður þetta ekki tekið alvarlega.“

Vill samstarf við tryggingafélögin

Eins og fyrr segir eru þessi samtök að fara af stað og segir Birgir að eitt fyrsta verkefnið muni tengjast því að ræða við tryggingafélög um kjör og framboð hjólatrygginga. „Af hverju eru ekki betri tryggingar í boði fyrir hjól?“ spyr hann og bendir á að þúsundir noti hjól sem samgöngutæki sitt og fleiri í allskonar útiveru og afþreyingu. Þá sé þegar komin vinna af stað við að koma upp raðnúmeraskrá fyrir hjól þar sem hægt verði að fletta upp hjólum sem séu í óskilum. Nefnir hann í því samhengi að Bjartmar Leósson hafi upp á sitt eindæmi tekið að sér óeigingjarnt starf við að koma hjólum sem hefur verið stolið aftur í hendur eigenda sinna. „Þetta sparar tryggingafélögum líklega milljónir árlega,“ segir Birgir og bætir við að með nokkur þúsund hjólum á raðnúmeraskrá megi auðvelda þetta verkefni til muna og að það sé forsenda fyrir að fá tryggingafélögin að borðinu með mögulega kostnaðarþátttöku. „Það þarf fjöldahreyfinguna á bak við þetta,“ ítrekar Birgir.

Margt fleira sé á hugmyndaborðinu og nefnir hann þar sérstaklega að hafa einhverskonar töðugjöld að vori fyrir hjólreiðasamfélagið, að sjálfsögðu þegar sóttvarnamál séu komin í lag að nýju, þar sem hjólreiðafólk fagni tímanum framundan.

Aðstaða á Sævarhöfða

Félagsskapurinn Reiðhjólabændur verður að sögn Birgis opinn án aðildargjalds fyrir þá sem vilja taka þátt í umræðu og hafa forsvarsaðila í málum eins og þeim sem komið hefur verið inn á hér að framan. Til viðbótar við það segir hann að hugmyndin sé að hafa einnig möguleika fyrir félaga til að greiða lítið aðildargjald og njóta meiri þjónustu. Þar vísar hann til þess að nýlega fékk félagið litla aðstöðu á Sævarhöfða hjá Hjólakrafti, en nánar er rætt um Sævarhöfða-verkefnið í öðrum stað í blaðinu. Þar segir Birgir að verði hægt að byrja og enda hjólatúra, fá sér heitt af könnunni, setjast niður og horfa á hjólakeppnir, halda fyrirlestra og fleira sem tengist hjólreiðum. Til viðbótar verði viðgerðaaðstaða og jafnvel hægt að fá afnot af hjólakerrum ef þessi hugmynd vindur upp á sig, en hugmyndin sé enn sem komið er í þróun og verði útfærð síðar í ár.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert