Á árunum 2017 til 2020 var 191 mál vegna óumbeðinna fjarskipta til meðferðar hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Kemur þetta fram í skriflegu svari frá stofnuninni til Morgunblaðsins.
Undir óumbeðin fjarskipti falla símtöl og annars konar fjarskipti til aðila sem óska eftir því að ekki verði haft samband við þá og hafa hlotið sérstaka merkingu þar um á ja.is.
Algengt er að haft sé samband við fólk símleiðis, t.a.m. vegna góðgerðarstarfsemi, auglýsinga eða í aðdraganda kosninga svo fátt eitt sé nefnt.
Engum sektum hefur verið beitt gagnvart þeim sem gerast sekir um að hafa samband við fólk sem óskar eftir að það sé ekki gert en lengst af hefur Póst- og fjarskiptastofnun ekki haft heimild til að leggja á sektir við brotum gegn banni við óumbeðnum fjarskiptum, að því er fram kemur í blaðinu í dag.