Gæs olli umferðarslysi

Gæsir eru ekki alltaf með umferðarreglurnar á hreinu.
Gæsir eru ekki alltaf með umferðarreglurnar á hreinu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Lögreglan handtók mann í annarlegu ástandi í miðborginni (hverfi 101) vegna líkamsárásar og vörslu fíkniefna og hann er vistaður í fangaklefa. Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá því í gærkvöldi og í nótt. 

Eitthvað var um óhöpp í umferðinni og var einn fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku eftir að hafa ekið rafskútu á ljósastaur í miðborginni. Maðurinn var ölvaður. 

Ökumaður bifhjóls var fluttur á bráðamóttökuna með sjúkrabifreið eftir að hafa ekið aftan á bifreið sem snögghemlaði þegar gæs gekk yfir götuna í Breiðholti (hverfi 109) í gærkvöldi.  

Í Kópavoginum (hverfi 201) blindaðist ökumaður af sólinni með þeim afleiðingum að hann ók á umferðamerki. Fjarlægja þurfti bifreiðina með kranabifreið.

Brotist var inn í vínbúðina við Dalveg í Kópavogi og áfengi stolið og eins voru höfð afskipti af manni vegna þjófnaðar úr verslun í miðborginni. 

Tilkynnt var til lögreglu um konu í annarlegu ástandi sem var til vandræða á Austurvelli. Lögreglan ræddi við við konuna sem lofaði að hætta að angra gesti og gangandi.

Ökumaður sem lögregla stöðvaði í Garðabæ reyndist undir áhrifum fíkniefna og var sviptur ökuréttindum að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert