Grímsvötn verða líklega næsta eldstöðin á Íslandi til að gjósa. Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur Veðurstofunnar á sviði jarðskorpuhreyfinga, ræddi við mbl.is um Grímsvötn og nokkrar aðrar virkar eldstöðvar.
Benedikt heldur utan um samfelldar GPS-mælingar Veðurstofunnar og vinnur úr þeim gögnum sem þær gefa af sér. Síðast töluðust Benedikt og blaðamaður við þann 17. mars, eða tveimur dögum áður en gjósa tók í Geldingadölum. Þá sagðist hann vona það, að ef af gosi yrði, kæmu GPS-mælingarnar að gagni.
„Við erum að gera tilraun með að skoða úrvinnslu GPS-mælinga í rauntíma í von um að við sjáum þegar kvika kemur upp, þá með einhvers konar aflögunarmerki. En þetta er tilraunastarfsemi og ekki hægt að reiða sig á þetta,“ sagði Benedikt þá.
Svo fór að engin merki sáust um gosið á GPS-mælingum, hvorki þegar það hófst né síðar.
„Það eina sem við höfum séð, er að rétt við gígopið sást örlítil færsla þegar það fór að gjósa annars staðar á sprungunni,“ segir hann í dag. „Það hafa í raun verið ótrúlega lítil og veik merki um þetta gos.“
Í síðustu viku bar á aukinni skjálftavirkni uppi á Mosfellsheiði. Hrina skjálfta mældist skammt frá Eiturhóli, þar á meðal skjálfti upp á 3,8 að stærð. Og þar skelfur jörð raunar enn, norðvestur af Hengli og suðvestur af Þingvallavatni.
Engin þensla hefur mælst á svæðinu.
„Það er ágætisnet mæla í kringum Hengilinn, sem hefur verið sett upp til að fylgjast með Henglinum og jarðhitavinnslunni,“ segir Benedikt. „En þetta verður að teljast hefðbundin skjálftavirkni frekar en að þetta tengist einhverju innskoti.“
Hann bendir á að kraftarnir utar á Reykjanesskaga kunni að verka víðar á skaganum, en eldstöðvarkerfi Hengilsins er einmitt það innsta á skaganum samkvæmt skilgreiningum jarðvísindamanna.
„Það hafa verið miklar spennubreytingar og við höfum séð virkni koma upp hér og þar sem gæti vel orsakast af þeirra völdum.“
Nokkrir skjálftar urðu í Mýrdalsjökli í morgun, þar af tveir af stærðinni 2,5. Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, sagði í samtali við mbl.is að ekkert óeðlilegt hefði mælst í kjölfarið.
„En það er satt að segja óvenjulegt ástand í Mýrdalsjökli,“ segir Benedikt og bætir við að með því eigi hann við litla jarðskjálftavirkni undir jöklinum undanfarin misseri.
„Það er greinileg virkni, en þessi mikla skjálftavirkni sem við sáum áður er ekki eins mikil núna, og í rauninni mjög lítil miðað við það sem við höfum séð að jafnaði síðustu áratugina,“ segir hann.
„En svona hefur hún hagað sér, það koma hlé áður en virknin tekur aftur við sér með slíkum krafti að allir fara upp á tærnar.“
Síðasta staðfesta gos í Kötlu, eldstöðinni undir jöklinum, varð árið 1918 og fylgdi mikið jökulhlaup.
Benedikt bendir á að jarðvísindamenn hafi komið auga á mögulega tengingu bráðnunar í Mýrdalsjökli og svo virkni í eldstöðinni sjálfri. Frá árinu 1500 hafa öll gos í Kötlu hafist á tímabilinu frá maí og fram í október.
„Það er uppi grunur um orsök og afleiðingu þar. Að bráðnunin létti á þyngslunum og komi af stað þessari virkni. Það hefur ekki tekist með sannfærandi hætti að sýna fram á þetta.
En mynstrið er mjög sláandi, það er ekki hægt að horfa fram hjá því.“
Öræfajökull tók að láta á sér kræla fyrir nokkrum árum en tók svo svefn á ný.
„Það var um hálft ár þar sem var viðvarandi skjálftavirkni í Öræfajökli, og það myndaðist jarðhitaketill í öskjunni,“ rifjar Benedikt upp með blaðamanni.
„Svo lognaðist sú virkni raunar út af. En við sáum aflögun á jarðskorpunni í tengslum við þá virkni og það voru merki um þenslu. Eldstöðin virðist aðeins hafa vaknað og sofnað svo aftur.“
Full ástæða er til að fylgjast vel með þessari stærstu eldstöð Íslands. Þar varð árið 1362 eldgos sem þykir með mestu sprengigosum á sögulegum tíma á jörðinni.
Blaðamaður nefnir að hann hafi lesið að Eyjafjallajökull hafi sýnt keimlíka virkni á árunum áður en gos hófst þar árið 2010. Benedikt tekur undir það.
„Fyrstu óróamerkin í Eyjafjallajökli voru ef ég man rétt árið 1992. Svo fylgdu hrinur á einhverjum árum, í þessa tæpu tvo áratugi áður en gjósa tók. Það virðist taka þessar eldstöðvar smá tíma í að vakna, sérstaklega ef þau hafa verið óvirk lengi, eins og í tilfelli Eyjafjallajökuls.
Í raun kom á óvart að það var ekki lengri aðdragandi á Reykjanesskaga. En þessi eldstöðvakerfi eru vissulega mjög ólík. Gosið í Fimmvörðuhálsi var samt sem áður líkt þessu á Reykjanesskaga,“ tekur hann þó fram.
Kvikan þar hafi komið djúpt að og líkast til síðar færst í kvikuhólf Eyjafjallajökuls og komið af stað gosi í eldstöðinni.
„Það sem kom úr toppgígnum var síðan allt annað.“
Loks berst talið að Grímsvötnum í Vatnajökli. Þar hefur virkni farið hægt vaxandi undanfarin misseri. Hækkaði Veðurstofan viðbúnaðarstig fyrir flug yfir eldstöðinni úr grænu í gult í september á síðasta ári.
Þá þegar mældist þensla á eða yfir þeim mörkum sem hún náði fyrir eldgosið árið 2011. Það gos var stórt. Síðan hefur þenslan aðeins aukist.
Aðspurður segir Benedikt að umfang þenslunnar segi þó ekki til um stærð gossins. Þannig hafi mikil stærð gossins árið 2011 komið á óvart, enda hafi þenslan þá verið álíka mikil og fyrir gosið árið 2004.
„Grímsvötn ættu að gjósa á næstu misserum,“ segir hann.
„Við höfum séð skjálftavirknina aukast jafnt og þétt. Þenslan er stöðug. Öll langtímamerki eru um að það sé að nálgast gos, og við eigum flest von á því.“
Í Grímsvötnum safnast saman bræðsluvatn af jöklinum, bæði vegna jarðhitans sem undir er og af öðrum völdum. Þegar það hefur safnast saman í nægilegum mæli til að brjóta sér leið út undir jökulinn, getur gos fylgt í kjölfarið.
„Það hefur verið talið að þessi mjög snögga þrýstilétting geti komið af stað eldgosi.“
Af öllum eldstöðvum Íslands þá þykja Grímsvötn sem sagt líklegust til að gjósa næst? Þú myndir veðja á það?
„Jú, ætli maður myndi ekki gera það,“ svarar Benedikt en hlær svo dátt um leið og hann bætir snögglega við: „En ég hef nú ekki alltaf veðjað rétt.“