Elsa Jónsdóttir og fleiri aðilar sem standa að baki nýrri sköpunarmiðstöð í Gufunesi, sem ber nafnið Fúsk, ætla í sumar að byggja gufubað við ströndina í Gufunesi. Borgarráð Reykjavíkur samþykkti í síðustu viku að veita Elsu styrk að fjárhæð kr. 1.000.000 vegna verkefnisins.
„Það er að rísa svolítið skemmtileg skapandi byggð þarna í Gufunesinu,“ segir Elsa í Morgunblaðinu í dag og bætir við að fyrst um sinn ætli þau að fá fólk á svæðinu til að hjálpa til við að byggja gufubaðið og síðan verði þetta staður fyrir þá sem standi að þeim fjölmörgu skapandi verkefnum sem eru á svæðinu til þess að kynnast.
„Þannig að það verði í rauninni einhver snertiflötur þarna. Því það eru alveg tugir verkefna þarna núna og allir eru svolítið hver í sínu horni, þannig að þarna hefur þetta fólk tækifæri til að koma saman,“ segir Elsa og bætir við að þegar sköpunarmiðstöðin verður komin vel á veg þá sé ætlunin að halda þar bæði viðburði og sýningar. Á sama tíma verði gufubaðið opið. „Þá hefur fólk ríkari ástæðu til að koma upp eftir og þá er í rauninni bara meiri dýpt í því sem er að gerast.“