Kröfur ASÍ fyrir kosningarnar í haust

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. Ljósmynd/mbl.is

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) kynnti í dag áherslur sínar inn í kosningabaráttuna vegna alþingiskosninga í haust. Er þar kallað eftir skýrri sýn stjórnmálaflokka á afkomutryggingu, atvinnuuppbyggingu og aðgerðir sem gagnast þeim landsvæðum og hópum sem verst hafa orðið úti vegna kórónuveirufaraldursins.

Þá segir sambandið að heildarsýn í húsnæðismálum skorti hjá stjórnvöldum. Húsnæðisöryggi snúist um grundvallarréttindi og stjórnmálaflokkar þurfi að skýra áform sín í þeim flokki fyrir kosningar. Heilbrigðismál eru einnig ofarlega á lista og niðurskurður þar sagður ógn við bæði heilsu og grundvallarréttindi.

„Heilbrigðiskerfið hefur ekki náð að rétta úr kútnum eftir niðurskurð eftirhrunsáranna og viðvarandi sveltistefnu nýfrjálshyggjuáranna. Niðurskurður er ógn við bæði heilsu og grundvallarréttindi. ASÍ styður þá stefnu að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga og stýra flæðinu úr krananum sem sérfræðilæknar hafa einir aðgang að. ASÍ mun aldrei fallast á áform um að draga úr framlögum til heilbrigðismála,“ segir í tilkynningu frá ASÍ.

Samtökin gera einnig kröfu um að launafólk fái „réttláta hlutdeild í verðmætum sem skapast við breytingar á vinnumarkaði. Um það snýst hugmyndafræðin um réttlát umskipti. Þegar ódýrara verður að framleiða vörur og þjónustu með nýrri tækni á það að skila sér í bættum kjörum og styttri vinnuviku.“

Jafnframt benda samtökin á skiptingu auðs í heiminum og segja að meiri misskipting komi samfélaginu öllu illa. Vilja þau að stjórnmálaflokkarnir skýri sýn sína í málaflokknum. „Á Íslandi eiga ríkustu 5% landsmanna um 40% af allri hreinni eign í samfélaginu og nýr auður ratar hlutfallslega mest til hinna ríku. Í sögulegu ljósi ýta kreppur undir ójöfnuð. Þess vegna verður að grípa til aðgerða til að draga úr ójöfnuði og það verður eitt mikilvægasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar og nýkjörins Alþingis. Samfélög jöfnuðar eru sterkustu samfélög í heimi. ASÍ krefst þess að stjórnmálaflokkarnir skýri hvernig þeir ætla að vinna að auknum jöfnuði á Íslandi.“

„Þann 25. september verður kosið til Alþingis. Það er krafa ASÍ að allir flokkar sem bjóða fram setji fram skýra framtíðarsýn og stefnu um þau mál sem skipta launafólk og almenning mestu máli: afkomu, heilbrigðismál, húsnæðismál, menntamál og jöfnuð. Við samþykkjum ekki þá hugmynd að í íslensku samfélagi sé slíkur skortur á fjármunum að ekki sé hægt að standa með viðunandi hætti að rekstri samfélagsins,“ segir að lokum í tilkynningu ASÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert