Mál albansks karlmanns, sem játað hefur að hafa skotið samlanda sinn, Armando Bequiri, til bana í Rauðagerði í febrúar, er komið á borð héraðssaksóknara.
Þetta staðfestir Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í svari við fyrirspurn mbl.is. Ríkisútvarpið greindi fyrst frá þessu.
Bequiri var ráðinn bani fyrir utan heimili sitt við götuna rétt fyrir miðnætti 13. febrúar. Var hann skotinn níu sinnum með byssu, sem lögregla fann í sjó við höfuðborgina.
Tekið var sérstaklega fram, á blaðamannafundi vegna málsins í lok mars, að fylgst yrði áfram með framvindu mála varðandi mögulegar hefndaraðgerðir. Lögregla telur sig vita ástæðu morðsins en hefur ekki upplýst hana.