Um 42 þúsund miðar hafa selst á fimm tónleika sem Sena Live hefur selt í streymi síðustu mánuði.
Það jafnast á við um það bil 30 stappfullar Eldborgar-hallir. Alls hafa þessir tónleikar skilað 130 milljónum króna í kassann hjá Senu Live.
Sala á einstaka dagskrárliði, Pay Per View, hefur til þessa ekki náð flugi á Íslandi en kórónuveirufaraldurinn og samkomutakmarkanir breyttu landslaginu. „Við veðjuðum á að það væri svo mikill þorsti hjá fólki í alvöruviðburði að þetta gæti gengið,“ segir Ísleifur B. Þórhallsson, framkvæmdastjóri Senu Live, í umfjöllun um mál þetta í Morgublaðinu í dag.