Náttúrufræðistofnun Íslands hefur birt nýtt þrívíddarlíkan af eldgosinu við Fagradalsfjall. Myndirnar sem líkanið var unnið úr voru teknar á milli klukkan 15 og 16 í dag.
Það var Birgir V. Óskarsson, jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, sem tók myndirnar á Hasselblad-myndavél um borð í flugvél, líkt og hann hefur gert frá því áður en eldgosið hófst. Fyrst var notast við flugvél frá Flugfélagi Austurlands en núna er flogið með Garðaflugi.
Um tvær klukkustundir tekur að útbúa svona líkan. Þegar áríðandi er að fá tölur um rúmmál, flatarmál og hraunflæði tekur það um þrjár til fjórar klukkustundir en nýjustu tölur verða tilbúnar í fyrramálið. „Þetta eru tölurnar sem allir vilja fá í vísindasamfélaginu,“ segir Birgir.
Spurður hversu margar ljósmyndir hann þarf að taka til að útbúa líkanið segir hann að hægt sé að búa það til úr fimm til sex myndum ef hann flýgur nógu hátt og nær öllu hrauninu á eina mynd, en skörun er á myndunum.
Venjulega er flogið í 4.000 til 6.000 feta hæð til að fá betri upplausn og er hann eini farþeginn í vélinni vegna Covid-19. „Stundum er skýjahulan lág og þá fer maður lægra,“ segir hann.
Til að fá nákvæmar staðsetningar fyrir þrívíddarlíkönin er notast við fastmerki, eða eins konar flögg, sem gengið er með um gossvæðið. Vegna þess hve svæðið er fljótt að breytast eru mörg fastmerkin komin undir hraun og því þarf að bæta nýjum við með reglulegu millibili.
Það er loftljósmyndastofa Náttúrufræðistofnunar sem vinnur líkönin, sem allir geta síðan skoðað. Vísindamenn geta notað þau til að skipuleggja ferðir vegna sýnatöku og almannavarnir geta gert viðbragðsáætlanir, svo dæmi séu tekin. Stofnunin er einnig í samstarfi við vísindamenn hjá Landmælingum Íslands og Háskóla Íslands. Í umbrotasjá Landmælinga er til dæmis hægt að skoða ýmis gögn í tengslum við eldgosið.
Birgir segir það hafa verið skemmtilegt verkefni að sinna eldgosinu. Hann segir Náttúrufræðistofnun hafa sérhæft sig í myndmælingatækni og nýtt aðferðina við jarðfræðikortagerð víðsvegar á landinu. Sú tækni hafi nýst mjög vel í tengslum við eldgosið.