Unnið við sjóvarnir við Eiðsgranda og Ánanaust

Myndin sýnir hvernig sjóvarnargarðurinn við Eiðsgranda hefur verið lagfærður.
Myndin sýnir hvernig sjóvarnargarðurinn við Eiðsgranda hefur verið lagfærður. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Borgarráð hefur heimilað umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við annan áfanga sjóvarnargarðs frá Eiðsgranda að Sorpu við Ánanaust.

Í vetur var unnið að því að breikka og hækka sjóvarnargarðinn frá dælustöðinni við miðjan Eiðsgranda að Ánanaustum. Þeim framkvæmdum er lokið en eftir er að malbika nýjan göngustíg meðfram sjónum, að því er segir í tilkynningu frá borginni.

Reiknað er með að sú framkvæmd verði boðin út í haust en áætlanir gera ráð fyrir að allur göngustígurinn, frá Keilugranda að Sorpu, verði malbikaður í einu ásamt nýjum áningarstað við Ufsaklett sem er vinsæll útsýnisstaður. Unnið er að hönnun göngustígs og áningarstaðar.

Á næstunni verður hins vegar ráðist í áframhaldandi endurgerð sjóvarnargarðsins frá hringtorgi við Eiðsgranda og Ánanaust út að Sorpu þar sem sjógangur hefur valdið skemmdum á malbikuðum stíg. Framkvæmdirnar felast í breikkun og hækkun garðsins en mikið mæðir á sjóvarnargarðinum þegar brim gerir og sjávarstaða er há.

Efni frá nýja Landspítalanum

Við framkvæmdirnar í vetur var notast við stórgrýti sem safnað hafði verið í garðinn við Ánanaust. Nú verður hins vegar notað efni sem kemur að hluta til úr framkvæmdum við uppbyggingu nýja Landspítalans við Hringbraut en einnig úr nálægum byggingarsvæðum við Ánanaust, Héðinsreit og Steindórsreit.

Afgirta svæðið frá dælustöðinni við Eiðsgranda og að bensínstöðinni við Ánanaust verður notað sem lagersvæði fyrir stórgrýti sem notað verður við endurgerð sjóvarnargarðsins og er það ein ástæða þess að ekki er hægt að klára yfirborðsfrágang fyrsta áfanga.

Kaflinn sem var endurgerður í vetur var um 500 metrar að lengd en annar áfangi verður um 450 metrar að lengd, að því er kemur fram í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert