Barnaþing haldið í annað sinn í Hörpu

Barnaþing var haldið í fyrsta sinn árið 2019.
Barnaþing var haldið í fyrsta sinn árið 2019. mbl.is/Árni Sæberg

Barnaþing Umboðsmanns barna verður haldið í annað sinn í Hörpu dagana 18.-19. nóvember næstkomandi. Á næstu dögum eiga um 350 börn von á bréfi frá umboðsmanni barna þar sem þeim verður boðið að sækja þingið heim. Barnaþing var fyrst haldið í Hörpu árið 2019 og þótti það takast einstaklega vel, eins og segir í fréttatilkynningu.

„Með fyrsta barnaþinginu hófst nýr kafli í réttindamálum barna og samráði við börn og nú er unnið að því að niðurstöður barnaþings verði nýttar með markvissum hætti við opinbera stefnumótun hjá stjórnvöldum,“ er haft eftir Salvöru Nordal, umboðsmanni barna. 

Þing í þjóðfundarstíl

Börnin sem fá boð á þingið voru valin með slembivali úr þjóðskrá til að fá sem fjölbreyttastan hóp til þátttöku en markmið Barnaþings er að efla lýðræðislega þátttöku barna og virkja þau í umræðu um málefni sem varða þau. Niðurstöður umræðunnar verða kynntar ríkisstjórn sem framlag þingsins til stefnumótunar í málefnum barna.

Þingið verður sett þann 18. nóvember með formlegri dagskrá en þann 19. nóvember verður umræða meðal barnanna í þjóðfundarstíl og munu fullorðnir einnig koma að umræðunni.

Ásamt barnaþingmönnum verður alþingismönnum, fulltrúum stofnana ríkis og sveitarfélaga, aðilum vinnumarkaðarins og frjálsum félagasamtökum boðið á þingið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert