Bilun kom upp í tæki sýkla- og veirufræðideildar sem greinir kórónuveirusýni í gær. Bilunin er ekki alvarleg en hún dregur úr afköstum tækisins svo þau eru nú um 75%. Einhverjar tafir á greiningu sýna kunna að hafa orðið vegna þessa en yfirlæknir sýkla- og veirufræðideilda býst ekki við frekari töfum. Hann segir að það sem helst tefji fyrir deildinni séu símtöl frá fólki sem reki á eftir niðurstöðum úr sýnatöku.
Nú er varahlutur sem vantar í vélina í pöntun og er ekki vitað hvenær hún kemst í fullkomið stand að nýju.
„Það sem gerist þegar tækið bilaði var að sú keyrsla var eiginlega ónýt og við þurftum að byrja með það upp á nýtt. Það tefur. Þess vegna gætu hafa orðið einhverjar tafir vegna þessarar bilunar í gær. Við erum með aðra leið sem við keyrum sýnin á og við reynum að keyra þá það sem kemst ekki í tækið með þeirri aðferð og nú gerum við ráð fyrir þessum 75% afköstum í dag svo við eigum ekki von á frekari töfum,“ segir Karl G. Kristinsson, yfirlæknir sýkla- og veirufræðideildar Landspítala.
Karl segir aðspurður að álagið á deildina hafi aukist talsvert vegna ferðamanna og utanlandsferða Íslendinga.
„Það er mikið hringt og við höfum ekki verið að gefa upp niðurstöður prófana vegna þess að við höfum ekki tök á því. Þetta er óþarfa álag á þau sem svara í símann hjá okkur,“ segir Karl.
Hann segir að vandinn sé sá að fólk haldi að það geti alltaf fengið niðurstöður úr sýnatöku samdægurs. Karl segir að það megi ekki ganga út frá því.
„Fólk á að reyna að fara í próf eins snemma og það getur, ekki fara á síðustu stundu vegna þess að það getur alltaf komið eitthvað upp á eins og kom upp á í gær, þegar endurtaka þarf einhverjar keyrslur og þá dregst þetta fram á næsta dag,“ segir Karl og bætir við:
„Það er í raun ekkert við okkur að sakast. Við erum náttúrulega að gera okkar besta og reyna að keyra sýnin eins hratt í gegn og hægt er en þegar koma upp svona atvik, þar sem þarf að endurtaka sýni vegna þess að niðurstöðurnar eru á mörkunum eða einhver vafi um svörun, getur þetta dregist fram á næsta dag.“
Karl segir að yfirgnæfandi meirihluta sýna sé þó svarað samdægurs.
„Það getur dregist fram á næsta dag að svara þeim sem koma seint um dag eða kvöld. Eins líka ef einhverjar truflanir verða á keyrslum.“