Karlmaður var á föstudaginn í Héraðsdómi Reykjaness fundinn sekur um líkamsárás, stórfelld brot í nánu sambandi, brot á nálgunarbanni og brot gegn barnaverndarlögum. Beindust flest öll brotin gegn þáverandi sambýliskonu hans og barnsmóður ásamt þremur sameiginlegum börnum þeirra, en líka gegn dóttur mannsins og ótengdum karlmanni sem maðurinn sló.
Maðurinn játaði brot sín gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni og börnunum, en hann var sakfelldur fyrir að hafa „ítrekað, endurtekið og á alvarlegan hátt og sérstaklega sársaukafullan og meiðandi hátt, ógnað lífi hennar, heilsu og velferð með líkamlegu og andlegu ofbeldi.“ Þá hafi hann einnig ógnað konunni, öskrað á hana, gripið og togað í hana, slegið og ýtt henni.
Eru brotin svo útlistuð nánar í tíu liðum, en þau áttu sér stað frá júní 2019 til febrúar á þessu ári. Fimm brotanna eru eftir að maðurinn var úrskurðaður í nálgunarbann, en hélt áfram að áreita konuna.
Í fimm tilfellum voru börn þeirra eða dóttir mannsins viðstödd og í eitt skipti. Er því meðal annars lýst svo að hann hafi í eitt skipti ruðst óboðinn inn á heimili konunnar þar sem hún var ásamt börnunum. Ógnaði maðurinn konunni, smánaði hana, hrækti framan í hana, öskrað á hana, gripið og ýtt henni þannig að hún skall á ofn. Stóð hann svo yfir konunni með krepptum hnefa þar sem konan lág á gólfinu öskrandi á hana þangað til tveir synir konunnar skriðu upp í fang hennar. Fór þá maðurinn á brott.
Maðurinn neitaði hins vegar að hafa slegið annan mann í andlitið, en dómurinn taldi hafið yfir skynsamlegan vafa að svo hefði verið. Þá var maðurinn einnig fundinn sekur um að hafa kveikt í bíl með því að hella bensíni í framsæti bifreiðarinnar.
Taldi dómurinn rétt að dæma hann í 14 mánaða fangelsi fyrir brotin, en maðurinn á nokkurn sakaferil að baki, meðal annars fyrir líkamsárásir, eignaspjöll, hótanir og umferðarlagabrot. Sérstaklega er tiltekið í dóminum að þó maðurinn hafi játað flest brotin, þá sé um styrkan og einbeittan brotavilja að ræða gegn fyrrverandi sambýliskonu og barnsmóður og börnunum. Er refsingin ekki skilorðsbundin að neinu leyti og er vísað til alvarleika brotanna gagnvart konunni og börnunum.
Þá er konunni dæmdar 1,5 milljón í bætur, hverju barninu 500 þúsund og manninum sem varð fyrir líkamsárásinni 280 þúsund. Að lokum þarf maðurinn að greiða 5,3 milljónir í sakarkostnað.