Engar breytingar verða gerðar á sóttvarnareglum á miðnætti annað kvöld er fyrri sóttvarnareglur áttu að renna sitt skeið á enda.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra greindi fjölmiðlafólki frá þessu er hún kom út af ríkisstjórnarfundi í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu fyrir skömmu. Fyrri reglugerð verður framlengd í að minnsta kosti viku. „Þannig að það verða nákvæmlega óbreyttar aðstæður í eina viku,“ segir Svandís og er þetta í samræmi við minnisblað Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis.
Hún á von á því að hægt verði að gera alvöru breytingar næst ef þróunin verður áfram eins og nú er. Vonandi viðamiklar segir Svandís en í minnisblaðinu bað Þórólfur um að reglugerðin yrði framlengd í eina til tvær vikur og hefur verið fallist á að framlengja hana í eina viku.
Að sögn Svandísar bendir allt til að búið verði að bólusetja vel yfir 40% fyrir vikulok en í vikunni verða yfir 31 þúsund einstaklingar bólusettir. Eins gangi vel á landamærunum og verið að ná tökunum á ástandinu innanlands.
Heilbrigðisráðuneytið kynnti í síðustu viku áætlun um afléttingu innanlandstakmarkana vegna Covid-19 í áföngum með hliðsjón af framgangi bólusetningar. Áætlað er að aflétta megi öllum innanlandstakmörkunum síðari hlutann í júní þegar um 75% þjóðarinnar hafi fengið a.m.k. einn bóluefnaskammt.
Afléttingaráætlunin er í fjórum skrefum og tekur mið af framgangi bólusetningar. Áætlunin er sett fram með hliðsjón af því hve hratt gengur að bólusetja landsmenn og er jafnframt birt með fyrirvara um mat sóttvarnalæknis á aðstæðum og stöðu faraldursins á hverjum tíma.
Fyrsta skref afléttingar hefur þegar verið tekið með tilslökunum á samkomutakmörkunum og í skólastarfi sem tóku gildi 15. apríl síðastliðinn. Þá voru fjöldatakmörk aukin úr 10 í 20 manns, opnað var fyrir starfsemi sundlauga, líkamsræktarstöðva o.fl. með takmörkunum, hægt var að hefja sviðslistastarf á ný og sitthvað fleira.