Ísland er í fimmta sæti í Evrópu hvað varðar fjölda bóluefnaskammta gegn Covid-19 sem gefnir hafa verið á hverja 100 íbúa en skammtarnir eru alls um 40 á hverja 100. Engin Norðurlandaþjóð er ofar á listanum. Þá er Ísland í fjórða sæti í heimsálfunni hvað varðar hlutfall þeirra sem hafa fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni, en litið er til allrar þjóðarinnar í því skyni og er hlutfallið því 30%.
Þetta sýnir bólusetningarakning New York Times sem tekur saman tölur yfir bólusetningar á heimsvísu.
Bretland, Malta, Ungverjaland og Serbía eru ofar en Ísland á listanum yfir skammta á hverja 100 en hlutfall þeirra sem hafa hafið bólusetningu er aðeins lægra hjá Serbum en Íslendingum eða 29%.
Danir og Finnar eru þær Norðurlandaþjóðir sem komast næst Íslendingum en 34 skammtar af bóluefni hafa verið gefnir hverjum 100 íbúum í báðum löndum. Þá hafa 23% dönsku þjóðarinnar fengið í það minnsta einn skammt af bóluefni en 31% finnsku þjóðarinnar. Norðmenn hafa gefið 32 bóluefnaskammta hverjum 100 íbúum og hafið bólusetningu hjá 25% þjóðarinnar. Tölurnar í Svíþjóð eru mjög svipaðar þeim í Noregi.
Eins og áður hefur komið fram hafa Danir og Norðmenn ákveðið að bólusetja ekki með bóluefni AstraZeneca gegn Covid-19 og hefur það sett strik í reikninginn. Þá hafa Danir einnig tilkynnt að þeir ætli ekki að nota bóluefni Janssen.
Bólusetning gengur best á Seychelles-eyjum en þar hefur 61% þjóðarinnar fengið fulla bólusetningu gegn Covid-19. Í Ísrael hafa 56% þjóðarinnar fengið fulla bólusetningu.