Fjarskiptafélagið Nova segir, að ákvæði í frumvarpi til nýrra fjarskiptalaga, sem nú er í meðförum Alþingis, setji mikla hagsmuni fjarskipta á Íslandi í uppnám sem geti leitt til stöðnunar, seinkað verulega tækniþróun ýmiss konar og dragi auk þess mikinn mátt úr samkeppni.
Umrædd frumvarpsgrein gerir ráð fyrir því að samgönguráðherra geti, að fengnum umsögnum ráðherra sem fara með utanríkis- og varnarmál, almannavarnir og löggæslu, kveðið á um í reglugerð að búnaður í tilteknum hlutum innlendra farneta, sem teljast viðkvæmir með tilliti til almannahagsmuna og öryggis ríkisins, skuli í heild sinni eða að ákveðnu hlutfalli búnaðar vera frá framleiðanda í ríki sem Ísland á öryggissamstarf við eða ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins.
Nova hefur tekið 5G-senda í notkun, með tækni frá kínverska fyrirtækinu Huawei. Í umsögn Nova um frumvarpið segir, að fyrir liggi að það ríki fákeppni á innviðamarkaði þráðlausra fjarskipta á heimsvísu en birgjar séu þar aðeins fjórir þ.e. Ericsson og Nokia frá Skandinavíu ásamt Huawei og ZTE frá Kína, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.