Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, vísaði á bug orðum stjórnarandstöðuþingmannsins, Jóns Steindórs Valdimarssonar úr Viðreisn, um að íslensku krónunni væri að kenna hvernig komið væri fyrir efnahag landsins. Þvert á móti sagði Bjarni að krónan væri blessun í þeirri efnahagskrísu sem gripið hefur um sig hér á landi í kjölfar heimsfaraldurs.
Þetta kom fram í sérstökum umræðum um efnahagsmál á Alþingi. Jón Steindór sjálfur var málshefjandi og Bjarni sat fyrir svörum.
„Krónan er vandamál. Vextir á evrusvæðinu og í þeim ríkjum sem hafa tengt gjaldmiðil sinn við gengi evru eru langtum lægri en á Íslandi. Þetta þýðir m.a. að íslenskur almenningur greiðir hærra verð fyrir lán sín en almenningur í löndunum í kringum okkur, fyrirtæki þurfa að standa straum af auknum kostnaði og ríkissjóður tekur ítrekaða áhættu með erlendri lántöku.
Herra forseti. Valkostirnir eru tveir; áframhaldandi dans krónunnar í umhverfi hafta og hárra vaxta eða tillaga Viðreisnar, að leita samkomulags við ráðherra Evrópusambandsins um að tengja krónuna við evru og sameiginlegar gengisvarnir með Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Evrópu. Hvorn kostinn ætlar hæstvirtur fjármálaráðherra að velja?“ sagði Jón Steindór í upphafsorðum sínum.
Bjarni svaraði Jóni Steindóri strax í næstu ræðu og sagði að hann væri ósammála því að upptaka evru væri það skynsamlegasta í stöðunni. Þvert á móti væri krónan blessun í því árferði sem nú er horft fram á – sértæk krísa sem einskorðast að mestu við eina atvinnugrein.
„Hvernig ætli okkur hefði gengið að fara í gegnum þessa krísu sem við erum að fara í gegnum núna með gjaldmiðil sem endurspeglaði ekki það áfall sem við urðum fyrir, hlutfallslega mikið áfall í einum þjónustugeira, í ferðaþjónustunni?“ spurði Bjarni.
Það hefði ekki litið öðruvísi út en við þekkjum annars staðar frá, það hefði verið stóraukið atvinnuleysi. Þá er enginn valkostur að sjá gjaldmiðilinn gefa aðeins eftir, sem er hans hlutverk við þær aðstæður. Það er ákveðin blessun í því efni að hafa krónuna.“